*

Sport & peningar 27. maí 2012

Dýru miðarnir eftir

Þeir sem hafa áhuga á að fara á Ólympíuleikana í sumar hafa ekki misst af lestinni. Nóg er til af miðum sem kosta 900.000 krónur.

Fjórðungur af dýrustum miðunum á Ólympíuleikana í London í sumar eru enn óseldir. Miðarnir kosta allt að 4500 pund, sem samsvarar um 900 þúsundum íslenskra króna.

Fyrirtækið Prestige Ticketing sér um sölu miðanna og heldur utan um að hafa ofan af fyrir þeim gestum sem borga best fyrir sína miða á Ólympíuleikana. Meðal annars mun fyrirtækið setja upp tímabundið húsnæði, sem á að geta rúmað allt að 3000 manns, til að fæða gestina, sem eru tilbúnir að borga nægilega vel fyrir aðgang að leikunum, einungis um 70 metrum frá Ólympíuleikvanginum sjálfum.