*

Hitt og þetta 5. janúar 2020

Dýrustu eignirnar árið 2019

Á síðasta ári voru sex eignir seldar fyrir 100 milljónir dollara eða meira í Bandaríkjunum.

Fremur óalgengt er að lúxuseignir séu seldar fyrir meira en 100 milljónir dollara, eða ríflega 12 milljarða króna, í Bandaríkjunum. Árið 2014 voru viðskipti með þrjár slíkar eignir og sömuleiðis árið 2016.

Á síðasta ári var slegið metið hvað þetta varðar þegar sex lúxusfasteignir voru seldar fyrir meira en 100 milljónir. Dýrasta eignin fór á 238 milljónir dollara, eða rúmlega 29 milljarða króna. Þrátt fyrir að met hafi verið slegið í þessu tillti þá endurspegla þessar sölur ekki ástandið á lúxusíbúðamarkaðinn heild því í fyrra hægði frekar á honum en hitt. Skýringarnar á því eru meðal annars offramboð af þessum eignum, skattabreytingar og minni eftirspurn frá erlendum aðilum. Greint er frá þessu í Wall Street Journal.

Dýrustu eignirnar árið 2019:

220 Central Park South í New York – 238 milljónir dollara.

Milljarðamæringurinn Ken Griffin keypti þessa 2.200 fermetra þakíbúð í New York í janúar í fyrra á ríflega 29 milljarða íslenskra króna, sem gerir hana að dýrustu lúxusfastseign Bandaríkjanna. Íbúðin er í 70 hæða skýjakljúfi við Centra Park en framkvæmdum við hann lauk í fyrra. Griffin er stofnandi og forstjóri Citadel vogunarsjóðsins í Bandaríkjunum. Eignir Griffin eru metnar á 12 milljarða dollara og í fyrra var hann í 117. sæti á lista Forbes fyrir ríkasta fólk veraldar.

Chartwell í Bel-Air í Los Angeles -  150 milljónir dollara.

Lachlan Murdoch, elsti sonur Rupert Murdoch, keypti þetta 2.300 fermetra hús í desember síðastliðnum á 18,5 milljarða íslenskra króna. Húsið var sett á sölu árið 2017 og var ásett verð 350 milljónir dollara. Miðað við það virðist sem Lachlan hafi gert ágætis kaup. Eignir Lachlan, sem er forstjóri Fox fjölmiðlasamsteypunnar, eru metnar á tæpa 4 milljarða dollara.

Spelling Manor í Los Angels -  120 milljónir dollara.

Sjónvarpsframleiðandinn Aaron Spelling lét byggja þetta hús á níunda áratug síðustu aldar. Húsið er 5.200 fermetrar og þar með stærsta íbúðarhús Los Angeles. Alls eru 123 herbergi í húsinu, sem byggt er í frönskum château-stíl. Fyrirsætan og tískuhönnuðurinn Petra Ecclestone keypti húsið árið 2011 og seldi það í fyrra. Nafn kaupandans hefur ekki verið gefið upp en hann mun vera frá Sádí-Arabíu. Kaupverðið nam 14,8 milljörðum króna. Petra er dóttir Bernie Ecclestone, sem stýrði Formúlu 1 um árabil.

La Reverie í Palm Beach í Flórída – 111 milljónir dollara.

Hjónin Steven Schonfeld og Brooke Schonfeld keyptu þetta 6.500 fermetra hús í desember síðastliðnum á 13,7 milljarða króna. Steven stýrir vogunarsjóði og er stofnandi Schonfeld Group.  Eignir hans eru metnar á 1,3 milljarða dollara.

La Follia í Palm Beach í Flórída – 110 milljónir dollara.

Í næsta nágrenni við Schonfeld-hjónin er La Follia, tæplega 3.500 fermetra lúxuseign, sem ónefndur kaupandi borgaði 13,5 milljarða króna fyrir. Húsið var í eigu Terry Allen Kramer, sem þekkt var sem „the grand dame of Palm Beach“.  Kramer, sem lést í maí í fyrra, var þekktur framleiðandi og setti upp ótal verk á Broadway. Hún vann meðal annars til fimm Tony-verðlauna á sínum ferli.

A Charles Gwathmey House í Malibu í Kaliforníu – 100 milljónir dollara.

Jan Koum stofnandi WhatsApp keypti þetta 1.300 fermetra hús á 12,3 milljarða króna síðasta sumar af Ron Meyer, varaforseta NBCUniversal. Húsið er teiknað af Charles Gwathmey, einum frægasta arkitekt Bandaríkjanna. Koum er fæddur í Úkraínu og flutti til Bandaríkjanna þegar hann var 16 ára árið 1992. Hann stofnaði WhatsApp árið 2009 og seldi það til Facebook fimm árum síðar á um 2.300 milljarða króna. Eignir Koum eru metnar á 10 milljarða dollara.