*

Ferðalög & útivist 27. september 2013

Dýrustu svíturnar í New York

Í dýrustu svítunum í New York eru bókasöfn, sérhönnuð húsgögn, listaverkasöfn og fleira gott. Skoðum þær.

Samkvæmt nýjustu tölum frá New York Hotels hefur verið gefinn út listi yfir dýrustu svítur New York borgar.

Svíturnar eru allar rúmgóðar og mikil áhersla lögð á útsýni, hönnun og öll heimsins þægindi. Lítum á þessar svítur nánar. Við byrjum á þeirri ódýrustu og vinnum okkur síðan upp lúxusskalann. 

Nóttin í Trump SoHo svítunni kostar 1,2 milljónir króna. Í svítunni er útsýni yfir Hudson ána og fallegu brýrnar í austri sem liggja yfir á meginlandið frá Manhattan. Í svítunni geta gestir setið í húsgögnum frá Fendi Casa og legið á sængurfötum frá Bellino Italian linens og hangið inni á baði úr marmara. 

Á Ritz Carlton kostar gisting í aðalsvítunni 1,7 milljónir króna. Í svítunni er nóg pláss fyrir matarboð og huggulegar móttökur. Athygli vekur að í svítunni er stór kíkir. Þar geta gestir horft niður á alla ofan af 22. hæð á meðan sérríið er sötrað. Hvað þarf maður meira?  

Empire svítan á The Carlyle hótelinu er á tveimur hæðum og er þriggja svefnherbergja. Svítan sem er líka stundum nýtt sem íbúð er hönnuð af Thierry Despont. Í henni er einnig skrifstofa, eldhús og listaverkasafn. Nóttin kostar rúmar 1,8 milljónir króna.

Nóttin í Versailles svítunni í The New York Palace kostar líka rúmar 1,8 milljónir króna. Svítan er tilvalin fyrir þá sem elska íburð af gamla skólanum en skreytingar með gulllaufum eru um alla svítu. Og líka silkigardínur og grískar súlur til að auka dýrðina.

Á 53. hæð á Mandarin hótelinu er forsetasvíta hótelsins. Úr henni er útsýni yfir Central Park og stóran hluta Manhattan. Í svítunni er viðarklædd skrifstofa, sérsmíðuð húsgögn og listaverkasafn. Nóttin kostar rúmar 2 milljónir króna.

Tata svítan í The Pierre er 180 femetrar en ef opnað er á milli herbergja á hæðinni getur svítan tekið yfir alla hæðina. Nóttin kostar rúmar 2,4 milljónir króna.

Á Peninsula hótelinu er hægt að leigja sex herbergja svítu. Rúmin eru af gerðinni Savoir. Gestir fá að auki far með BMW bifreiðum um alla borg. Nóttin kostar 2,9 milljónir dala. 

Á Plaza hótelinu kostar nóttin í Royal Plaza svítunni rúmar 3,6 milljónir króna. Hönnun svítunnar er innblásin af konungshöll Loðvíks fjórtánda. Með svítunni fylgir einkalíkamsrækt og bókasafn.

Dýrasta svíta New York borgar, samkvæmt listanum, er síðan forsetasvítan á St. Regis hótelinu. Í svítunni eru þrjú svefnherbergi og útsýni er beint yfir 5th avenue. Í svítunni er einnig bókasafn skreytt útskornum viði. Nóttin kostar 4,25 milljónir króna.

 

 

 

 

 

 

 

Stikkorð: Gaman  • Lúxushótel  • svítur