*

Bílar 11. maí 2017

Eðalvagn sem er til í tuskið

Volvo V90 Cross Country er nýjasta afurðin frá sænska bílaframleiðandanum. Bíllinn fellur í lúxusflokk hjá Volvo með S90 Wagon og XC90 jeppanum.

V90 Cross Country leysir af hólmi Volvo V70 Cross Country og er talsvert stærri og betur búinn en 70 bíllinn. Volvo V90 Cross Country er upphækkuð útgáfa hins nýútkomna flaggskips Volvo S90 Wagon og á að vera færari um að glíma við erfiðar aðstæður. Þetta er stór og mikill langbakur og þriðji bíll Volvo sem ber stafina 90.

Volvo hefur tekist ótrúlega vel til í hönnun á nýjustu bílum sínum og sérstaklega 90 línunni. V90 Cross Country kippir í kynið því á honum má sjá framljósin sem bræður hans hafa en þessi LED ljós hafa verið kölluð Þórshamarinn. Bíllinn er einnig með sambærilegt grill og fyrst var kynnt á XC90 jeppanum. Línurnar eru flottar heilt yfir. Á afturendanum má svo sjá L-laga ljós sem gefa bílnum fallegt yfirbragð.

Búinn undir torfærur

Bíllinn er fjórhjóladrifinn og með útstandandi brettaköntum og hlífðarplötum að framan og aftan til að verja hann betur í torfærum. Þetta er allt samkvæmt bókinni varðandi Cross Country bíla Volvo. Ekkert nýtt undir sólinni hvað það varðar. Stuðarar bílsins eru aðeins breyttir frá S90-bílnum en annars er útlitið og hönnunin sú sama. Bíllinn er eins og S90-bíllinn að innan og ekki leiðum að líkjast hvað það varðar.

Innanrýmið er mjög flott. Einfalt að mörgu leyti en klassískt og vandað er mjög til verka. Það er mikið leður- og viðarklæðning í innanrýminu sem gefur bílnum lúxustilfinningu. Þykk leðursætin eru afbragðsgóð og veita mikinn stuðning í akstrinum. Þau eru rafdrifin sem er annað merki um lúxusinn um borð.

Silfraður ræsihnappur

Ræsihnappurinn er á milli framsætanna sem er öðruvísi en maður á að venjast. Ökumaður snýr silfruðum takkanum til hliðar og þá ræsist bíllinn, síðan einfaldlega til baka þegar slökkt er á bílnum. Þetta gefur enn eina lúxustilfinninguna um borð. Stór snertiskjár í miðstokknum sér um langflestar aðgerðir sem þýðir að óvenjufáir aðgerðahnappar eru í innan¬rýminu. Þeir eru einfaldlega í skjánum, m.a. hiti og miðstöðin.

Nánar má lesa um málið í bílablaði sem fylgdi Viðskiptablaðinu 11. maí. Áskrifendur geta nálgast blaðið hér að ofan undir liðnum Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér.

Stikkorð: Volvo  • langbakur  • eðalvagn