*

Hitt og þetta 14. september 2019

Edda Hermanns skrifar um framkomu

Bók markaðs- og samskiptastjóra Íslandsbanka, um framkomu, kemur út á nýju ári í samstarfi við bókaútgáfuna Sölku.

Á sama tíma og ár er liðið síðan systurnar Edda Hermannsdóttir og Eva Laufey Kjaran Hermannsdóttir hófu að halda sérstakt framkomunámskeið fyrir konur hyggst sú fyrrnefnda nú skrifa bók um framkomu í samstarfi við Sölku útgáfu.

Skrifaði Edda, sem er forstöðumaður samskipta, markaðsmála og greininga hjá Íslandsbanka, í vikunni undir útgáfusamning um bókina og er ætlunin að bókin komu út í byrjun næsta árs.

Bókin verður um framkomu í allri sinni mynd, þar á meðal uppbyggingu greina, fyrirlestra, frétta sem og framkomu í útvarpi og sjónvarpi. Hyggst hún þar jafnframt fara yfir ráð sem nýtist í daglegum störfum, hvort sem fyrir konur eða karla, unga sem aldna.

„Því það er víst sama hvað við kunnum og vitum, það þýðir lítið ef við getum ekki komið því vel frá okkur,“ skrifaði Edda á facebook síðu sína.