*

Matur og vín 28. febrúar 2013

Ef þið hélduð að hrossakjöt væri slæmt lesið þá þetta

Enginn vill borga fyrir nautakjöt og fá gamalt rúmenskt hross í staðinn. En það er til margt verra en hrossakjöt.

Lára Björg Björnsdóttir

Ýmislegt verra en hrossakjöt er á sveimi í kjötbransanum samkvæmt grein á vefsíðunni GrubStreet og þar er augljóslega margt í mörgu. Í greininni eru tekin dæmi um svik og pretti þegar kemur að kjötbransanum.

Nú þegar allir mögulegir brandarar um hrossakjöt hafa verið sagðir og fólk hefur gapað yfir kjötleysi í kjötréttum væri þá ekki við hæfi að skoða hlutina aðeins í samhengi?

Skoðum nokkur dæmi úr greininni á GrubStreet. Þetta gæti nefnilega verið svo miklu, miklu verra:

Svínablóð selt sem andablóð. Í Kína er andablóð notað í búðing og kostar sitt. Svínablóðið var meðhöndlað með efnum til að láta það bragðast eins og andablóð.

Hrægammakjöt í stað kjúklings. Þetta er víst algengt í Port Harcourt í Nígeríu svo varist kjúklingastaðina þar ef þið eruð á ferðinni í Nígeríu.

Asnakjöt í stað nautakjöts. Af 139 sýnum tekin af „nautakjöti“ í Suður-Afríku reyndust 99 sýni innihalda asnakjöt, svín, kjúkling eða geit. Þessar sýnatökur fóru fram í gær.

Kattakjöt selt sem kindakjöt. Kattakjöt blandað saman við kindafitu er víst nálægt því að bragðast eins og kindakjöt, að sögn.

Litað svínakjöt í stað nautalundar. Í fyrra sagði sænskur heildsali frá því að hann hefði tekið við stórri sendingu af „nautakjöti“ frá Ungverjalandi. Nautakjötið reyndist vera svínakjöt litað með matarlit til að láta það líta út eins og hrátt nautakjöt.

Rottukjöt (Cane Rat) selt sem villibráð frá Afríku og Asíu. Þetta komst upp á markaði...í London.

Stikkorð: Hrossakjöt