*

Sport & peningar 22. mars 2012

„Ef þú getur brosað, þá er þetta ekki nógu erfitt“

Berlinske fjallar um Budz Boot Camp í Danmörku, afsprengi Boot Camp á Íslandi, í grein um óhefðbundna íþróttaiðkun.

Þjálfunarglaðir Danir krefjast sífellt harðari þjálfunar. Þjálfun hjá Budz Boot Camp í Danmörku mætir þeirri eftirspurn að mestu leyti en þjálfunin er í anda þess sem gerist hjá bandaríska hernum.

Þannig byrjar grein blaðamanns Berlingske, sem birt er á lífstílsvefnum Fri í Danmörku, en blaðið fylgdi Nick Watkins, þjálfara og stofnanda Budz Boot Camp í Danmörku, nýlega eftir á æfingu á Amager í Kaupmannahöfn. 

Í greininni er fjallað um óhefðbundna íþróttaiðkun, svokallaðar extreme íþróttir og þá sérstaklega fjallað um Crossfit og Boot Camp. Eftirspurn eftir óhefðbundnum æfingaraðferðum hefur aukist mikið á síðustu árum eins og fram kemur í greininni.

Eins Viðskiptablaðið greindi frá í september sl. stóðu hjónin Nick og Anita Watkins fyrir opnun Budz Boot Camp í Kaupmannahöfn sl. haust. Anita er íslensk en Nick er hálfur Breti og hálfur Dani. Þau hafa verið búsett í Danmörku um nokkurt skeið en hafa sótt Boot Camp tíma hér á landi þegar þau hafa heimsótt landið. Budz Boot Camp er því nokkurs konar útibú af Boot Camp hér á landi.

„Hér enginn að brosa. Ef þú getur brosað, þá er þetta ekki nógu erfitt,“ kallar Nick yfir hópinn þegar ein stúlkan úr hópnum reynir að brosa til ljósmyndara blaðsins þegar hann er við það að taka mynd af henni. Höfundur greinarinnar lýsir því þó þannig að í auga Nick megi sjá glampa sem gefi til kynna að allt sé þetta nú í mesta gamni.

Blaðamaður lýsir því  hvernig þátttakendur hlaupa, gera armbeygjur, lyfta þungum sandpokum og hoppa um á milli traktorsdekkja - snemma um morgun í frosti.

Sjá greinina í heild sinni.

Stikkorð: Boot Camp  • Budz Boot Camp  • Líkamsrækt