*

Tölvur & tækni 8. febrúar 2012

Tölvunarfræði er bæði fyrir stráka og stelpur

Blásið er til tækniráðstefnunnar UTmessu á morgun. Áherslan er lögð á að hvetja börn til að leggja tölvu- og tæknistörf fyrir sig.

Jón Aðalsteinn Bergsvein
 - jon@vb.is

„Krakkar halda að forritun sé öðruvísi en hún er og að í hana fari strákar sem hafi gaman af tölvuleikjum. En það er ekki rétt, hún er líka fyrir stelpur,“ segir Arnheiður Guðmundsdóttir, framkvæmdastjóri Skýrslutæknifélags Íslands sem stendur fyrir UTmessunni sem hefst á morgun.

Um 40 fyrirtæki hafa skráð sig til leiks á UTmessunni sem haldin er í annað sinn og eru fyrirlesarar álíka margir.

Arnheiður segir tilgang messunnar þá að vekja athygli á tæknigeiranum, þar með forritun. „Það er margt jákvætt að gerast í tæknigeiranum. En það eina neikvæða er að krakkar eru hættir að fara í tölvunarfræði,“ segir hún og bendir á að nú sé svo komið að mikill skortur sé á forriturum almennt. Útlit er fyrir að 400 þúsund einstaklinga vanti í tæknistörf í Evrópu á næstu þremur árum.

Arnheiður bendir á að fyrir hrun hafi margir farið í nám í viðskiptafræðum og talið sig geta efnast á því. „Ef krakkar vilja verða ríkir þá ættu þeir að fara í tölvunarfræði,“ segir hún og vill nú sjá fleiri gera fagið að framtíðarstarfi.

Leikir og verðlaun í boði

Messan verður haldin á Grand Hóteli og er hún tvískipt. Annars vegar er um ráðstefnu að ræða með fyrirlesurum þar sem rætt verður um ýmsa kima tæknigeirans. Síðdegis verður opið fyrir almenning frá um klukkan 15 og verður opið til klukkan 9 um kvöldið. Aðgangur verður ókeypis.

Mikið verður um að vera á UTmessunni síðdegis á morgun. Tæknifyrirtæki sem taka þátt á ráðstefnunni gefa börnum tækifæri til að læra forritun í skamman tíma auk þess að efna til leikja fyrir börn og fjölskyldufólk. Ýmis verðlaun eru ýmis verðlaun í boði, svo sem spjaldtölvur og símar.

UTmessan