*

Bílar 5. janúar 2015

Eftirminnilegustu bílar ársins 2014

Í Áramótablaði Viðskiptablaðsins voru nefndir nokkrir áhugaverðir bílar sem frumsýndir voru árið 2014.

Bílasala jókst um 30,1% fyrstu ellefu mánuði ársins og ef hagvöxturverður eins og spáð er verður salan enn meiri árið 2015.

Bílarnir hafa minnkað og dísilvélar eru ráðandi. Á nýju ári munu koma á markað mikill fjöldi bíla búnir tvinnvélum, sérstaklega bensínvél og rafmagnsmótor.

Líklegt er að slíkir bílar verði vinsælir þar sem þeir eru aflmiklir án þess þó að verðið sé óbærilegt vegna flokkunar í tollflokk.

Þeir bílar sem við nefnum hér til sögunnar eru miðaðir við íslenska markaðinn og líklegir til vinsælda hérlendis.

Volvo XC 90

Volvo frumsýndi árið 2013 Concept Coupe sportbílinn. Bíllinn var gerður til að sýna í hvaða anda nýir bílar Volvo yrðu. Það sást vel þegar XC90 var frumsýndur í París í haust. Jeppinn er mjög vel heppnaður, bæði að utan og innan, og tengslin við Concept Coupe leyna sér ekki. Framleiðsla hefst eftir áramót og verður án efa vinsæll í sínum flokki hér á landi.

VW Passat

Passatinn er orðinn meiri lúxusbíll en áður. Innra rýmið hefur aukist og sæti og innrétting er til fyrirmyndar. Bíllinn er fallegri og sportlegri en eldri gerð og veghljóð minna. Hann kemur til Íslands í vor.

Lexus NX

RX jeppinn hefur í fyrsta sinn eignast yngri bróður. NX er mjög sportlegur í útliti, með hvassar línur og mikið grill. Bíllinn er skemmtilegur í akstri og hentar vel við íslenskar aðstæður.

Suzuki Vitara

Með nýjum Vitara hefur verið tekið stórt skref í útliti bílsins og innréttingunni sem er gæðaleg. Vélarnar eru hagskvæmar m.t.t. íslenskra tollheimtumanna og því líklegt að hann seljist vel.

BMW 4 Gran Coupe

Þessi bíll er líklega stærsti keppinautur BMW 3. Þetta er gríðarlega fallegur bíll. Sá sem kaupir þennan bíl fyrstur til Íslands á skilið að fá fálkaorðu bílaunnandans.