*

Viðtöl 2. nóvember 2017

Ég er aldrei ég sjálfur

Þrátt fyrir mikla velgengni á ferlinum er minnimáttarkennd enn stór hluti af lífi Ladda.

Kolbrún P. Helgadóttir

„Feimnin er orðin miklu betri en minnimáttarkenndin er enn að angra mig. Ég krítísera sjálfan mig mjög illa, tala mig niður, tala efnið mitt niður, á erfitt með að trúa því að fólki líki það sem ég er að gera og þess háttar. Þetta er alveg ótrúlega lífseigt.“

Laddi segist síður finna fyrir þessu ef fólk kemur á sýningu með honum. Þá nái hann að hugsa að fólk sé nú að koma af fúsum og frjálsum vilja til þess að sjá hann. En hafi sem dæmi þriggja manna skemmtinefnd samband við hann fyrir hönd stórs fyrirtækis og biðji hann um að koma að skemmta þá valdi það honum miklu hugarangri hvað öllum hinum starfsmönnunum finnist.

Laddi segir að um leið og hann fari í karakter séu áhyggjurnar á bak og burt því þá sé hann ekki lengur hann sjálfur. „Ég er aldrei ég sjálfur. Ef ég á að standa upp sem ég sjálfur og segja eitthvað þá get ég það bara ekki.“

En hver skyldi þá vera hans uppáhaldskarakter?

„Það er hann Eiríkur Fjalar. Hann er stór partur af mér, svona svolítið eins og ég var, ofsalega feiminn en alveg harðákveðinn í því að sýna fólkinu sem hefur verið að stríða sér að hann ætli að verða eitthvað. Jafnvel að verða eitthvað meira en það.“ En upplifir Laddi sjálfur að hann sé búinn fá sína uppreisn gagnvart þeim sem stríddu honum? „Já, það finnst mér svo sannarlega. Það að vera virtur leikari og skemmtikraftur hefur gert það að verkum að mér finnst ég hafa sigrað. Ég er á mjög góðum stað.“

Lesa má viðtalið við Ladda í heild sinni í Eftir vinnu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð.