*

Sport & peningar 17. september 2015

„Ég er ekki tilfinningalaus steinn“

„Maður er ekki alltaf eins og þegar maður er fyrir framan myndavélarnar,“ segir Gunnar Nelson.

Alexander F. Einarsson

Gunnar Nelson er einn af bestu blönduðu bardagaíþróttamönnum heims og afar vinsæll meðal íslensku þjóðarinnar; þúsundir manna sitja límdar fyrir framan skjáinn og fylgjast með hverjum bardaga.

Gunnar hefur skapað sér sérstaka ímynd á erlendri grundu. Hann er þekktur fyrir að vera stuttorður og rólegur og sýnir hann sjaldan miklar tilfinningar. Dana White, forseti UFC, hefur margoft sagt að Gunnar sé „maður fárra orða“, enda lætur hann lítið fyrir sér fara opinberlega.

„Maður er ekki alltaf eins og þegar maður er fyrir framan myndavélarnar. Það halda mjög margir að ég sé bara einhver steinn, blákaldur og tilfinningalaus… en allir mínir vinir og þeir sem hafa verið í kringum mig vita að það er í rauninni alls ekki satt. Ég hef alltaf verið í tilfinningaríkari kantinum,“ tekur Gunnar fram og kveðst ekki vita hvers vegna hann hefur fengið á sig þessa tilteknu ímynd.

„Oft er meira innra með manni heldur en sjá má utan á. Ég held að menn geti alveg áttað sig á því að það býr mikil orka í manni; hreinlega á því hvað ég starfa við, og hvernig ég geri það sem ég geri. Maður þarf samt líka að geta stjórnað sér og þekkt inn á sjálfan sig. Mín skoðun hefur ávallt verið sú að ef þú ert gríðarlega tilfinninganæmur og fullur af orku þarftu að læra að beita henni rétt ætlir þú að ná árangri. Þú þarft að vera skynsamur og þú þarft jafnframt að þekkja umhverfi þitt - og sjálfan þig fyrst og fremst. Það að ná ákveðnu jafnvægi er það mikilvægasta af öllu þegar lagt er á sig stórt verkefni.“ 

Gunnar Nelson er í ítarlegu viðtali í Eftir vinnu, fylgiriti Viðskiptablaðsins, sem kom út í morgun. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð.

Stikkorð: Gunnar Nelson  • UFC  • MMA