*

Heilsa 19. mars 2013

EGF húðdropar hljóta ein virtustu snyrtivöruverðlaun heims

EGF húðdroparnir frá Sif Cosmetics hlutu verðlaun sem snúa að nýsköpun í snyrtivöruiðnaðinum um helgina.

 EGF Húðdropar™ frá Sif Cosmetics hlutu um helgina hin virtu GALA Spa verðlaun fyrir merka nýsköpun í snyrtivöruiðnaðinum.

Verðlaunin, sem eru nokkurs konar Óskarsverðlaun snyrtivörugeirans í Þýskalandi, voru veitt í 17. sinn við hátíðlega athöfn í Baden Baden á laugardaginn. Hin unga ofurfyrirsæta Toni Garrn hlaut sérstök heiðursverðlaun fyrir störf sín og framlag til mannúðarmála. Í öðrum flokkum hlutu Clinique, Clarins og La Prairie verðlaun auk þess sem verðlaun voru veitt í flokki lúxushótela og heilsulinda.

„Við erum mjög ánægð með að fá þessi verðlaun sem enn á ný staðfesta að Húðdroparnir okkar eru einstök vara. Sá árangur sem við höfum náð í markaðssetningu á erlendum markaði er fyrst og fremst til kominn vegna þess að notendur mynda sterk tengsl við vöruna og eru duglegir að deila reynslu sinni af notkun hennar. Það er í raun mjög merkilegt að fyrirtæki sem nánast ekkert hefur auglýst, skuli hljóta svo virt verðlaun í geira sem byggir að stórum hluta á auglýsingum. En fólk hrífst af vörunni og þar á meðal eru erlendir blaðamenn sem hingað hafa komið og hrifist af landi og þjóð, og þeirri tækni sem liggur á bak við framleiðslu Húðdropanna. Það sama á greinilega við um dómnefndina sem veitti verðlaunin,“ sagði Björn Örvar, framkvæmdastjóri Sif Cosmetics.

Níu manna dómnefnd valdi verðlaunahafa úr 258 vörum frá 139 vörumerkjum frá 29 löndum. Meðal dómara voru Christian Krug aðalritstjóri GALA í Þýskalandi, útbreiddasta vikutímarits Þýskalands og Dr. Med. Martina Kerscher, prófessor í snyrtivörufræðum við Háskólann í Hamborg. Frekari upplýsingar um verðlaunin er að finna á hér.