*

Hitt og þetta 20. desember 2013

Eggert: Skemmtilegur endir á góðum degi

Texti forstjóra N1 var valinn besti textinn í Geðveikum jólum í gær.

Gærdagurinn var ekki bara merkilegur í lífi Eggerts Benedikts Guðmundssonar, forstjóra N1, fyrir þær sakir að N1 var skráð á markað. Texti hans vann líka til verðlauna í Geðveikum jólum. Framlag N1 í Geðveikum jólum hét Enn ein geðveik jól.

Lokaþáttur Geðveikra jóla fór fram á RÚV í gær og þar voru veitt verðlaun fyrir besta lagið, besta textann og þar fram eftir götunum. Geðveik jól eru haldin til styrktar Hlutverkasetri, Vin og Hugarafli en áheitum er safnað í keppninni og var lokað fyrir áheitasöfnun í gærkvöldi. Fjölmörg fyrirtæki sendu framlög til keppninnar. 

„Þetta var skemmtilegur endir á góðum og ævintýralegum degi,“ sagði Eggert Benedikt í samtali við Viðskiptablaðið. Hann tók einnig þátt í að flytja lagið í keppninni en hann er hluti af hljómsveitinni Heavy Metan sem var stofnuð fyrir jólaskemmtun N1 fyrir ári. 

Stikkorð: N1  • Geðveik jól