*

Tíska og hönnun 31. janúar 2013

Eggið og Svanurinn áfram vinsælir í Epal

Sala á klassískum húsgögnum er áfram góð en neyslumynstur fólks hefur breyst.

Lára Björg Björnsdóttir

„Salan á Egginu og Svaninum er góð en vissulega hefur hún eitthvað dregist saman,“ segir Kjartan Páll Eyjólfsson, framkvæmdastjóri Epal. 

Stólarnir seldust gríðarlega vel í uppgangnum sem var á Íslandi fyrir nokkrum árum en þeir voru að einhverju leyti tengdir góðærinu. „Eggið kostar í kringum 900 þúsund og Svanurinn í kringum 600 þúsund. Þetta eru klassísk húsgögn og fólk hugsar kannski frekar að það er betra að kaupa dýrari hluti sem endast ef eyða á fjármunum í húsgögn yfir höfuð,“ segir Kjartan Páll.  

Hann segir neyslumynstur fólks hafa breyst eftir hrun: „Fólk er sífellt að leita að einfaldari leiðum til að breyta til. Í góðærinu kom fólk og vildi jafnvel skipta öllu út en í dag hugsar það meira um að kaupa gæði og kannski færri hluti,“ segir Kjartan Páll.

Hann segist sjá aukningu í sölu á einni ákveðinni vöru: „Púðasala hefur aukist gríðarlega hjá okkur. Ég held að fólk sé oft að leita að einföldum leiðum til að breyta sófanum sínum án þess að þurfa að fjárfesta í nýjum.“ 

Stikkorð: Eggið  • Epal