*

Tíska og hönnun 16. júlí 2013

Eggið, Svanurinn og Dropinn voru hönnuð fyrir SAS hótelið

Hilmar Þór Björnsson arkitekt fjallaði um hönnun Arne Jacobsen í fyrsta tölublaði Eftir vinnu.

Flestir þekkja húsgögn og lampa Arne Jacobsen en færri vita að mörg af þeim voru sérstaklega hönnuð fyrir SAS Royal hótelið. Arne Jacobsen hannaði SAS Royal hótelið í Kaupmannahöfn á árunum 1958-1960. Hótelið fékk nýtt nafn árið 2009 og heitir í dag Radisson Blu Royal hotel.

Á sjöttu hæð hótelsins er að finna alveg sérstakt herbergi. Því hefur verið haldið við í sinni upprunalegu mynd frá því hótelið var opnað árið 1960. Þetta er Arne Jacobsen svítan, herbergi 606.

Húsgögnin sem blasa við þegar gengið er inn í svítuna eru stólarnir Eggið, Svanurinn, Dropinn og sófi sem nefnist Model 3300, auk borða.

Dropinn er ekki jafn þekktur og hin húsgögnin en hann var líka teiknaður sérstaklega fyrir hótelið. Dropinn er áhugaverður fyrir hugmyndina sem að baki honum liggur. Rýmið átti að sýnast eins, hvort sem einhver sat í stólnum eða ekki.

Húsgögn Arne Jacobsen þykja nýtískuleg og eru stöðutákn. Húsgögnin bera vott um að eigendurnir séu efnaðir, hafi góðan smekk og fylgist vel með. Þetta er athyglisvert í ljósi þess að húsgögnin eru meira en hálfrar aldar gömul.

Eggið og Svanurinn eru enn í framleiðslu og njóta mikilla vinsælda. Hinsvegar hefur framleiðslu á Dropanum verið hætt og hann er því eftirsóttur á fornsölum og hjá uppboðshöldurum og selst á yfir eina milljón íslenskra króna.

Hótelið var hannað á árunum 1958-1960 og byggt í miðborginni skammt frá Tívolí, Aðaljárnbrautarstöðinni og Ráðhústorginu. Meðan á hönnun hótelsins stóð birtust skissur af hugmyndunum í fjölmiðlum. Gagnrýnendur óttuðust að hótelið mundi trufla hefðbundna ásýnd borgarinnar. Byggingin er tuttugu hæða og var sú hæsta í borginni allt fram til 1969. Innblásturinn er sagður koma frá Lever byggingu SOM á Park Avenue í New York.

Hilmar Þór Björnsson fjallar nánar um Arne Jacobsen og SAS Royal hótelið í fylgiriti Viðskiptablaðsins, Eftir vinnu, sem kom nýlega út í fyrsta sinn með Viðskiptablaðinu.

Fylgist með Eftir vinnu hér á Facebook. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir liðnum tölublöð hér.