*

Menning & listir 23. júní 2016

Egill Sæbjörnsson fulltrúi Íslands

Egill Sæbjörnsson hefur verið valinn fulltrúi Íslands á 57. Feneyjartvíæringnum árið 2017.

Eydís Eyland

Egill Sæbjörnsson er myndlistamaður, gjörningalistamaður, tónlistamaður og tónskáld. Verk hans samanstanda oftar en ekki af samblöndu raunverulegra hluta sem sveipaðir eru tálsýn og töfrum í gegnum vídeóvörpun og hljóð. Nýmiðlar, gjörningar og tónlistarflutningur spilar stórt hlutverk í verkum hans. Egill beitir kímni sinni, klókindum og dýpt, öllu á sama tíma. Hann ruglar fólk í ríminu og kemur á óvart á meðan hann leiðir okkur á ánægjulegan hátt að tilvistarlegum spurningum. Verk Egils eru tilraunakennd og þarfnast hvorki leiðbeininga né kunnáttu til skilnings og upplifunar.

Sýning Egils verður unnin í samstarfi við Stefanie Böttcher sýningarstjóra. ,,Ég er mjög heiðruð af vali dómnefndar. Það er heljarinnar áskorun að sýningarstýra íslenska skálanum á Feneyjartvíæringnum sem er ein helsta listasýning í heimi. Ég hlakka afskaplega mikið til verkefnisins og ég er sannfærð um að gestir sýningarinnar verði algjörlega hugfangnir af framlagi Egils Sæbjörnssonar. Um leið og þeir stíga fæti inn í verkið, verða þeir hluti af því,” segir Stepanie. 

Val á fulltrúa Íslands á Feneyjartvíæringnum árið 2017 var í höndum fagráðs sem samanstóð af Björgu Stefánsdóttur framkvæmdastjóra KÍM, Hlyni Hallssyni safnstjóra Listasafnsins á Akureyri og Sirru Sigrúnu Sigurðardóttur listamanni. 

Sýningin mun standa yfir frá 13 maí 2017 til 27 nóvember 2017.