*

Menning & listir 11. janúar 2017

Eiðurinn vinsælasta kvikmynd ársins 2016

Vinsælasta mynd ársins í íslenskum kvikmyndahúsum árið 2016 var Eiðurinn, kvikmynd Baltasars Kormáks. Tekjur af Eiðnum voru tæpar 64 milljónir.

Vinsælasta kvikmynd ársins í íslenskum kvikmyndahúsum var Eiðurinn, kvikmynd Baltasars Kormáks. „Þá má geta þess að Íslendingar komu líka við sögu á vinsælustu mynd ársins 2015, Everest, og var það jafnframt í annað sinn sem sami leikstjóri (Baltasar Kormákur) átti vinsælustu mynd ársins tvö ár í röð, en áður var það James Cameron þegar Avatar var vinsælasta myndin 2009 og 2010. Baltasar hefur í raun fjórum sinnum leikstýrt vinsælustu mynd ársins (Eiðurinn, 2016, Everest 2015, Mýrin 2006 og Hafið 2002),“ segir í fréttatilkynningu frá FRÍSK (Félags rétthafa í sjónvarps og kvikmyndaiðnaði).

Tekjur af Eiðnum voru tæpar 64 milljónir og alls komu tæp 47 þúsund manns í kvikmyndahús til að horfa á myndina.

Einnig kemur þar fram að á árinu 2016 sóttu 1.420.435 manns íslensk kvikmyndahús og er það aukning um 2,74 prósentustig. „Þess má geta að árið 2015 var í fyrsta skipti í fimm ár sem aukning var í aðsókn á milli ára í íslensk kvikmyndahús og hefur hún því aukist í tvö ár í röð, sem er einkar ánægjulegt. Enn er þó langt í land að hún nái metárinu 2009 þegar tæp 1,7 milljón manns fór í kvikmyndahús. Heildartekjur af kvikmyndasýningum í íslenskum kvikmyndahúsum var kr. 1.689.720.455 og er það hækkun upp á 8,9% í tekjum frá árinu 2015. Hver Íslendingur fór 4,27 sinnum í bíó á árinu og enn og aftur eru Íslendingar í hæstu hæðum þegar kemur að bíóaðsókn í heiminum,“ er einnig tekið fram í tilkynningunni.

Suicide Squad næstvinsælust

Næstvinsælust var svo kvikmyndin Suicide Squad með 57 milljónir í tekjur og nýjasta Star Wars myndin, Rogue one, sem var að hluta tekin upp hér á landi, raðaði sér í þriðja sætið með 56,7 milljónir í tekjur.

„Frumsýndar kvikmyndir á árinu voru samtals 179 sem er sami fjöldi og á árinu 2015.  Frumsýndar íslenskar kvikmyndir og heimildarmyndir voru 15 á árinu, sem er tveimur myndum fleiri en á árinu 2015. Eins og áður segir var kvikmyndin Eiðurinn þar langvinsælust en kvikmyndin Grimmd kom þar á eftir með tæpar 17,5 milljónir í tekjur og þar á eftir Fyrir framan annað fólk með rúmar 14,6 milljónir í tekjur. Vinsælasta heimildarmynd ársins var svo Jökullinn logar sem halaði inn rúmar 4,2 milljónir í kvikmyndahúsum í kringum Evrópukeppnina síðastliðið sumar. Samtals var hlutfall íslenskra kvikmynda og heimildarmynda í kvikmyndahúsum 6,6%, sem er aukning frá árinu 2015 þegar íslenskar myndir voru tæp 4,8% af markaðnum,“ segir einnig í tilkynningunni frá FRÍSK.