*

Sport & peningar 29. apríl 2014

Eigandi Clippers sektaður um 2,5 milljónir dala

Donald Sterling, eigandi Clippers, verður að öllum líkindum þvingaður til að selja liðið.

Donald Sterling, eigandi NBA liðsins Los Angeles Clippers, var í dag sektaður um 2,5 milljónir dala. Honum hefur einnig verið meinað að mæta á leiki í NBA deildinni fyrir lífstíð. Washington Post segir að Adam Silver, nýr framkvæmdastjóri NBA deildarinnar, muni einnig leggja til við stjórn NBA deildarinnar að Sterling verði þvingaður til að selja Clippers.

Ástæðan fyrir öllum þessum ósköpum er sú að Sterling gerði athugasemd við það að unnusta sín ætti í samskiptum við þeldökka menn og birti myndir af þeim á Instagram. Þessar athugasemdir gerði hann meðal annars eftir að unnusta hans sást í samskiptum við körfuboltamanninn Magic Johnson. Þessar athugasemdir náðust á hljóðupptöku og voru birtar á veraldarvefnum. Eftir það hefur Sterling verið sakaður um kynþáttahatur. 

Þetta mál hefur vakið mikla reiði víðsvegar í Bandaríkjunum eftir að það uppgötvaðist. Hávær krafa hefur verið höfð uppi um að Sterling verði gert skylt að selja liðið. Meðal annars hefur verið lagt til að fyrrnefndur Magic Johnson kaupi það, en Magic átti hlut í því fyrir fáeinum árum.