*

Sport & peningar 29. október 2018

Eigandi Leicester látinn

Srivaddhanaprabha er talinn hafa verið fimmti ríkasti maður Tælands og festi hann kaup á Leicester árið 2010.

Tælendingurinn Vichai Srivaddhanaprabha, eigandi enska knattspyrnuliðsins Leicester City, er látinn. Srivaddhanaprabha var einn af fimm farþegum þyrlu sem brotlenti fyrir utan King Power Stadium, heimavöll Leicester, en allir sem voru um borð í þyrlunni létust.

Srivaddhanaprabha er talinn hafa verið fimmti ríkasti maður Tælands og festi hann kaup á Leicester árið 2010. Á þeim tíma var liðið í Championship deildinni, sem er næst efsta deild ensku deildakeppnanna. Á þessum átta árum undir stjórn Srivaddhanaprabha hefur uppgangur Leicester verið mikill og náði hann hápunkti þegar Leicester urðu mjög óvænt Englandsmeistarar árið 2016.

Mikil sorg ríkir innan Leicester og knattspyrnuheimsins í heild sinni. Fjölmargir hafa lagt leið sína að King Power vellinum til að votta Srivaddhanaprabha virðingu sína og sömuleiðis hafa margir sent samúðarkveðjur í gegnum samfélagsmiðla.