*

Sport & peningar 4. september 2012

Eigandi Liverpool afsakar slakt gengi en passar veskið

Svo virðist sem misskilnings hafi gætt milli knattspyrnustjóra og eigenda Liverpool um kaup á sóknarmönnum fyrir veturinn.

Bandaríski viðskiptamaðurinn John Henry, sem er stærsti eigandi enska knattspyrnuliðsins Liverpool, segist ekki ætla að stefna fjárhagslegri framtíð félagsins í voða með dýrum leikmannakaupum.

Þetta sagði Henry í opnu bréfi til stuðningsmanna liðsins í gær en síðustu daga hafa bæði eigendur félagsins og knattspyrnustjórinn, Brendan Rodgers, legið undir ámæli fyrir slakt gengi Liverpool í upphafi tímabilsins í ensku deildinni. Liverpool hefur ekki enn sigrað í þeim þremur leikjum sem eru búnir á tímabilinu.

Það sem helst hefur verið deilt um er brotthvarf sóknarmannsins Andy Carroll sem lánaður var til West Ham rétt áður en tímabilið hófst. Á vef BBC kemur fram að þó svo að þeir viðurkenni það ekki opinberlega er nokkuð ljóst að Rodgers lánaði Carroll í þeirri trú að hann fengi fjármagn til að kaupa aðra sóknarmenn áður en tíminn rann út til að kaupa og selja leikmenn. Rodgers var með þá Clint Dempsey hjá Fulham og Daniel Sturridge hjá Chelsea í sigtinu, en ekkert varð af kaupunum.

Í fyrrnefndu bréfi segir Henry að Liverpool hafi fjárfest í góðum leikmönnum yfir sumarið og þeir muni nýtast félaginu vel í framtíðinni. Þannig telur hann upp þá Joe Allen, Nuri Sahin og Fabio Borini, þó enginn þeirra fylli í skarð Carroll í sókninni. Þá segir Henry að fjárfesting hans í Liverpool sé til lengri tíma og að hvorki hann né aðrir eigendur félagins hafi hug á því að stefna fjárhagslegri framtíð þess í hættu með glórulausum fjárfestingum. Rétt er að rifja upp að Henry og viðskiptafélagar hans tóku við mjög erfiðu búi í október 2010 þegar þeir eignuðust félagið.