*

Sport & peningar 7. maí 2011

Eigendur Manchester City í algjörum sérflokki

Helmingur eigenda liða í ensku úrvalsdeildinni eru ekki enskir. Útlendu eigendurnir hafa komið inn í deildina með gríðarlegt fjármagn.

Þórður Snær Júlíusson

Eigendur Manchester City, konungsfjölskyldan í Abu Dhabi, eru langríkustu eigendur ensks knattspyrnuliðs. Fjölskyldan var talin eiga 78.540 milljarða íslenskra króna í árslok 2008. Næstríkasti eigandinn er talinn vera Alisher Usmanov, fyrrum viðskiptavinur Kaupþings, sem á um þriðjung í Arsenal. Auður hans var metinn á 1.848 milljarða króna um síðustu áramót, eða um 2,3% af eign konungsfjölskyldunnar. Þetta kemur fram í samantekt TalkSPORT á eigendum liðanna 20 í ensku úrvalsdeildinni.

Einungis tíu lið af tuttugu sem spila í efstu deild í Englandi eru í meirihlutaeigu enskra aðila. Fimm þeirra eru bandarískir en hinir eru indverskir, egypskir, kínverskir, rússneskir og auðvitað frá Abu Dhabi.

Nýir Íslandsvinir á meðal eigenda

Sjeik Mansour og konungsfjölskylda hans eru augljóslega algjörlega sér á báti á meðal eigenda þegar kemur að fjárfestingagetu. Þegar rýnt er í eigendur hinna liðanna sem telja sig til þeirra stóru í deildinni kemur í ljós að mikill munur er á þeim auðæfum sem þeir búa yfir.

Líkt og minnst var á að ofan er Usmanov, einn eigenda Arsenal, sá sem kemst næst Abu Dhabi-hópnum. Stærsti eigandi Arsenal, Bandaríkjamaðurinn Stan Kroenke, er auk þess metinn á tæplega 200 milljarða króna. Roman Abramovich, sem hefur nú átt Chelsea í átta ár, var talinn eiga rúmlega 1.500 milljarða króna í lok síðasta árs. Joe Lewis, sem nýverið keypti hlut í hinum íslenska MP banka, er líka eigandi Tottenham Hotspur. Auður hans var metinn á tæplega 500 milljarða króna á Forbes- 2011 listanum yfir ríkustu menn heims.

Kjúklingabændur ríkari en Liverpool

Glazier-fjölskyldan óvinsæla, sem keypti stórveldið Manchester United með skuldsettri yfirtöku sumarið 2005, er metin á tæplega 300 milljarða króna. Það er tvisvar sinnum meira en fjölskyldan greiddi fyrir félagið á sínum tíma og má reikna með að eign hennar í Manchester United sé stór hluti af eignarsafninu.

Hinn bjórþambandi, og hreinlega hataði fyrrum viðskiptavinur Kaupþings, Mike Ashley, keypti Newcastle í maí 2007 fyrir samtals um 25 milljarða króna. Hann er talinn eiga um 184 milljarða króna í dag. Það er tæplega helmingi meira en hið bandaríska Fenway Sports Group, sem frelsaði Liverpool frá öðrum bandarískum eigendum í fyrra. Sá hópur var talinn eiga tæpa 100 milljarða króna í árslok 2009, sem þykir ekki mikið í samanburði við eigendur hinna liðanna sem telja sig til „þeirra stóru“ í ensku úrvalsdeildinni. Meira að segja indversku kjúklingabændurnir í Venky, sem keyptu Blackburn Rovers í fyrra, eru taldir eiga meiri pening en Fenway. Auður þeirra er metinn á um 120 milljarða króna.

Greinin birtist í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins.