*

Menning & listir 27. ágúst 2012

Eigendur MGM vona að James Bond bjargi fyrirtækinu

Nýjasta kvikmyndin um James Bond verður frumsýnd í nóvember. Hugmyndir eru um að skrá kvikmyndaverið á hlutabréfamarkað.

Stjórnendur kvikmyndaversins MGM bera miklar vonir til Skyfall, nýjustu kvikmyndarinnar um ævintýri njósnarans James Bond, sem frumsýnd verður í nóvember. Þetta er 23. myndin um breska njósnara hennar hátignar og fer Daniel Craig með aðalhlutverkið í þriðja sinn. Hann er jafnframt sjöundi leikarinn til að fara í föt njósnarans frá því fyrsta myndin var frumsýnd fyrir hálfri öld. 

En annað og meira býr að baki væntingum stjórnenda MGM. Eins og breska viðskiptablaðið Financial Times greinir frá gæti myndin hjálpað til við að auka veg MGM á nýjan leik. Fyrirtækið hefur samkvæmt umfjöllun blaðsins átt nokkuð erfið ár. Staðan svo slæm í nóvember fyrir tveimur árum að stjórnendur þess urðu að leita eftir heimild til greiðslustöðvunar samkvæmt bandarískum gjaldþrotalögum og tóku kröfuhafar það yfir. 

Í Financial Times segir að áætlað verðmæti MGM nemi í kringum 2,5 milljörðum dala, jafnvirði rétt rúmra 300 milljarða íslenskra króna.

Blaðið bendir á að hugmyndir séu um að skrá kvikmyndaverið á hlutabréfamarkað. Þótt slíkt sé ekki endilega hagkvæmt fyrir kvikmyndafyrirtæki að vera á hlutabréfamarkaði þá geti það gagnast núverandi eigendum MGM, ekki síst fyrir þær sakir að með skráningu á markað geti þeir selt hlutabréf sín og fengið upp í skuldir fyrri eigenda. 

Stikkorð: MGM  • James Bond  • Daniel Craig  • Skyfall