*

Tölvur & tækni 25. mars 2012

Eigendur og stjórnendur CCP eru mjög ánægðir

Stjórnarformaður og stærsti eigandi CCP segjast báðir hafa mikla trú á nýja leiknum, Dust 514.

Stjórnarformaður CCP, Vilhjálmur Þorsteinsson, og stærsti eigandi fyrirtækisins, Björgólfur Thor Björgólfsson, segjast mjög ánægðir með nýja leikinn og þá stefnu sem CCP er á.

Vilhjálmur Þorsteinsson, stjórnarformaður CCP, segir að síðasta ár hafi verið ár endurskipulagningar en árið í ár verði mjög spennandi. „Dust leikurinn er um margt mjög frábrugðinn því sem venjulegt er í þessum geira og það skýrir að hluta til þá miklu athygli sem hann nýtur í erlendum fjölmiðlum. Það er líka í anda CCP að fara ekki troðnar slóðir í leikjahönnun, heldur prófa nýja hluti og jafnvel finna upp nýja tegund af tölvuleikjaspilun, eins og ég held að þau séu að gera með Dust.“ Vilhjálmur segist ekki geta sagt að hann hafi prófað leikinn. „Nei, ég get ekki sagt það, en við í stjórninni höfum fylgst vel með þróun leiksins og ég hef gripið í hann. Þetta er mjög flottur leikur.“

Björgólfur segir það alltaf hafa verið gaman að fylgjast með því hve hugmyndaríkt starfsfólk CCP er. „Starfsfólk CCP er magnaður hópur! Það hefur alltaf verið gaman og lærdómsríkt að fylgjast með hversu hugmyndaríkt og kröftugt fólkið hans Hilmars er. Stundum hefur hvarflað að mér að þau hljóti einhvern tímann að rekast á eigin takmörk, en þá bæta þau bara enn í. Ég er sannfærður um að nýji leikurinn slær í gegn, eins og annað sem þau hafa gert.“