*

Menning & listir 3. september 2012

Eiginmaður kynlífsbókahöfundar: Keyptu nýjan bíl

Líf E. L. James er fjarri því jafn ævintýralegt og sögupersónanna í bókinni Fifty Shades of Grey.

Samneyti rithöfundanna Niall Leonard og konu hans, Eriku Leonoard, er fjarri því jafn spennandi og ævintýri þeirra Anastasíu Steel og Christian Grey í erótísku bókinni Fifty Shades of Grey. Erika er höfundur bókanna og skrifar undir höfundarnafninu E.L. James en Niall er að gefa út spennusögu. Þau unnu bæði í sjónvarpi áður en þau sneru sér að skáldsagnaskrifum.

Fifty Shades of Grey kom út í fyrrasumar og hefur hún selst í um 40 milljónum eintaka síðan þá. Engin önnur bók hefur heldur selst jafn hratt og þessi. Bækurnar um Harry Potter hömpuðu þeim titli áður en Fifty Shades of Grey tók hana niður. Bókin, sem mörgum þykir í svæsnari kantinum, er söluhæsta bók sem gefin hefur verið út í Bretlandi frá því mælingar hófust. Hún er væntanleg í íslenskri þýðingu. 

Niall Leonard var í viðtali við helgarútgáfu breska dagblaðsins Guardian. Þar segir hann frá því að ólíkt ævintýralegu lífi sögupersónanna í bókinni þá sé hjónalífið öllu hefðbundnara. Þau vinna bæði við skrif sín heima fyrir en þurfa að sinna börnum sínum og fara út að ganga með hundinn eins og aðrir. 

Niall Leonard segir heimilislífið ekki hafa breyst mikið þrátt fyrir velgengni bóka eiginkonu sinnar. Þau hafi engu að síður skipt út gamalli bifreið fyrir nýjan Volkswagen. Hins vegar sé gömul eldhúsinnrétting á heimili þeirra í London og hurðin dottin af bakaraofninum. Þau þurfi skipta henni út fyrir nýja.

Viðtalið við Niall Leonard.