*

Bílar 1. september 2019

Eignaðist tvíbura og þurfti stærri bíl

Ragnhildur Steinunn Jónsdóttir eignaðist tvíbura 25. mars með Hauki Inga Guðnasyni. Fyrir eiga þau tvö börn.

Róbert Róbertsson

Það er nóg að gera á heimilinu og fjölskyldan þurfti að fá sér nýjan og stóran bíl til að koma öllum fyrir. Mercedes-Benz Vito varð fyrir valinu og segist Ragnhildur Steinunn hæstánægð með bílinn.

,,Við erum með fjögur börn í bílstólum og það þurfti að hugsa ferðamáta fjölskyldunnar alveg upp á nýtt. Við vorum á Mercedes-Benz GLC sportjeppa sem er mjög góður bíll en hann rúmaði ekki alla fjölskylduna lengur. Við skoðuðum marga bíla eftir að við eignuðumst tvíburana en það voru ekki margir sem komu til greina sem taka fjóra barnabílstóla. Við prófuðum nokkra álitlega bíla, m.a. Mercedes-Benz Vito og hann varð fyrir valinu. Það kom okkur svo á óvart hversu mjúkur og lipur hann var í akstrinum. Því þurftum við að kyngja því að það væri líklega snjallast að vera á bíl með rennihurð. Nú erum við með tvær rennihurðir,“ segir Ragnhildur Steinunn og brosir.

Ekki hrifin af strumpastrætó hugmyndinni

,,Ég var ekki hrifinn af strumpastrætó hugmyndinni og reyndi að sannfæra Hauk Inga manninn minn að vera á tveimur bílum. Við reyndum það fyrstu tvo mánuðina en svo var orðið leiðinlegt að vera á tveimur bílum í stað þess að ferðast saman fjölskyldan. Þetta er líka gríðarlegur farangur sem fylgir barnahópnum og þá sérstaklega þeim yngstu. Þar má m.a. nefna tvíburakerru sem tekur mikið pláss. Þannig að bíllinn þurfti að vera með mjög gott skott og það er svo sannarlega málið með Vito. Ég þarf ekki að taka tvíburakerruna í sundur heldur fer hún beint inn í skottið. Ég er oftast kölluð ,,Taxi mama“ af vinum mínum um þessar mundir. Þú getur ímyndað þér hvað ég verð vinsæl í vinahópnum eftir góð matarboð. Það verður örugglega leitað til mín að skutla vinum heim,“ segir hún og hlær.

Með mikla bíladellu

Ragnhildur Steinunn er mikil bílaáhugakona. ,,Ég er alin upp af miklum bílaunnenda, föður mínum Jóni Þór Harðarsyni, sem vann lengi vel á rútuverkstæðinu í Keflavík. Hann er mikill bíladellukall. Hann ól mig upp frá sex ára aldri og ég lærði snemma að keyra. Við keyrðum stundum Garðskagann á sunnudögum og ég fékk stundum að stýra bílnum þótt ég hafi varla séð yfir stýrið. Ég náði ekki niður á kúplinguna en það kom ekki að sök því pabbi sat undir mér. Ég horfði mikið á kappakstur þegar ég var yngri með pabba og það hefur lengi blundað í mér að prófa kappakstur einhvern tímann. Ég held ég láti þó ekki verða af því úr þessu, ekki eftir að ég eignaðist börnin fjögur.

Ég var lengi á BMW en fyrir um áratug eignaðist pabbi Mercedes-Benz og þar sem ég elti nú pabba í mörgu þá fórum við Haukur að kíkja á Benz. Við eignuðumst Mercedes-Benz GLC fyrir nokkrum árum og okkur hefur líkað mjög vel við þann bíl. Við erum einnig með rafmagnsbíl, Kia Soul sem er skemmtilegur bíll. Dóttir okkar 9 ára er mikill umhverfissinni og hoppaði hæð sína í loft upp þegar við fengum rafbíl á heimilið. Planið í framtíðinni er að eignast stóran rafbíl sem rúmar alla fjölskylduna. Þegar sá bíll kemur á markað þá munum við huga að honum,“ segir hún.

Draumabíllinn rafknúinn fjölskyldubíll

Ragnhildur Steinunn var nýtekin við sem aðstoðardagskrárstjóri hjá RÚV þegar hún fór í barneignafrí. Hún var líka nýbúin að setja í loftið sjónvarpsseríuna Sítengd sem fjallar um samfélagsmiðlanotkun Íslendinga. Nú er hún í alsæl í fæðingarorlofi og segist ekki kvarta undan verkefnaleysi. ,,Það er svo sannarlega nóg að gera með fjögur börn á heimilinu og þar af tvíburana einungis fimm mánaða.“

Spurð um skemmtilegasta bíl sem hún hafi prófað og einnig um draumabílinn svarar hún: ,,Ég prófaði einu sinni Lamborghini og ók einn hring á þeim magnaða sportbíl. Það er besti bíll sem ég hef prófað hingað til. Draumabíllinn er rafknúinn fjölskyldubíll sem rúmar okkur öll, helst með einni rennihurð.“