*

Menning & listir 17. ágúst 2012

Einar seldi strax fjórar náttúrumyndir

Athafnamaðurinn Einar Bárðarson segir að smá kommúnisti hafi komið upp í sér þegar hann var að setja upp ljósmyndasýningu.

Jón Aðalsteinn Bergsvein
 - jon@vb.is

„Náttúran er mesti listamaðurinn og maður er bara áhorfandi með myndavél,“ segir athafnamaðurinn og tónleikahaldarinn Einar Bárðarson sem í dag opnaði sýningu með sextán ljósmyndum af náttúru Íslands. Myndirnar eru til sýnis í Íslensku kaffistofunni sem þeir Simmi og Jói, helstu eigendur Hamborgarafabrikkunar, reka í Turninum á Höfðatorgi. Sýningin nefnist Mynstur lands og stendur hún til loka mánaðar.

Einar segir nokkurn fjölda fólks hafa fylgst með þegar hann setti upp myndirnar og hafi tilboð komið í fjórar þeirra þegar hann var að hengja þær upp. 

„Það kom upp í mér smá kommúnisti og ég ætlaði að þvertaka fyrir það að selja myndirnar fyrr en þær voru allar komnar upp. En svo sá ég að ég gæti ekki verið með svoleiðis deleríur,“ segir Einar sem seldi tvær myndir saman en tvær stakar. Myndirnar fóru á um 80 þúsund krónur stykkið, 320 þúsund krónur í heildina. Kaupendurnir verða hins vegar að vera þolinmæðir því þeir fá ekki myndirnar afhentar fyrr en sýningunni lýkur. 

Hefur tekið myndir í mörg ár

Einar segist hafa tekið myndir í mörg ár og farið á námskeið, m.a. í listasögu þegar hann var í háskólanámi í Arizona í Bandaríkjunum rétt fyrir síðustu aldamót.

„Ég keypti mér einhvern tíma flotta myndavél fyrir fermingarpeningana og fór á námskeið, lærði að framkalla í myrkraherbergi og fram eftir götunum. Ef þú spyrð konuna mína þá hef ég keypt of margar myndavélar síðan þá,“ segir Einar sem festi kaup á SLR-myndavél af gerðinni Olympus í fyrra og tók hann myndirnar sem hann sýnir á Höfðatorgi í sumar í ferð með fjölskyldunni á leiðinni frá Lómagnúpi austur að Borgarfirði eystri í sumar. 

Einar segist ekki hafa stefnt að því að sýna myndirnar. Hann hafi hins vegar orðið dolfallinn af flestu því sem varð á vegi hans.

„Sem betur fer ók frúin. Annars hefði ég verið stórhættulegur í umferðinni, bæði gagnvart sjálfum mér og öðrum,“ segir Einar og bætir við að sér hafi fundist þetta fallegar myndir og því leyft fólki að skoða þær.  

„Ég var síðan hvattur til að sýna þær fleirum og valdi nokkrar myndir. Þegar það var orðið erfitt að gera upp á milli mynda þá bað ég vini mína á Facebook til að læka þær myndir sem þeim fannst flottastar. Eftir það skildist fljótt á milli þeirra mynda sem fólk hafði áhuga á og hinna,“ segir Einar. 

Á Facebook-síðu Einars má sjá fleiri myndir sem hann sýnir.