*

Ferðalög 29. janúar 2013

Einar: Nöturlegur gerviheimur

Fréttamanninum Einari Þorsteinssyni fannst skemmtilegt að sjá litla bróður sinn halda að hann gæti stjórnað öpum.

Lára Björg Björnsdóttir

Viðskiptablaðið heyrði í nokkrum einstaklingum og forvitnaðist um hvaða lönd hafa ekki slegið í gegn hjá þeim. Einar Þorsteinsson, fréttamaður á RÚV, er jákvæðastur viðmælenda Viðskiptablaðsins:

„Mér hefur fundist flest lönd sem ég hef heimsótt þokkaleg. Sum auðvitað skemmtilegri en önnur. Mér fannst til dæmis mjög nöturlegt að heimsækja Kúbu og sjá gerviheiminn sem brugðið er upp fyrir ferðamenn þar á meðan almenningur býr við kúgun og skort.“

Einar getur þó ekki sleppt því að rifja upp skemmtilega ferð úr æsku sinni: „Ein ánægjulegasta upplifunin var þó ferðalag sirka árið 1990 niður Evrópu með fjölskyldunni. Skemmtun ferðarinnar var að fylgjast með Halldóri bróður mínum, sem þá var líklega fjögurra ára, leika sér í Donkey Kong tölvuspilinu. Hann var mjög einbeittur og hélt að hann væri að stjórna öpunum sjálfur en í raun var þetta bara stillimyndin. Það var aldrei kveikt á tækinu. En Dóri var sáttur við þetta, líklega þangað til hann les þetta viðtal,“ segir Einar.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir liðnum Tölublöð hér að ofan.