*

Bílar 23. júlí 2021

Eingöngu raf-Benzar árið 2030

Allar nýjar tegundir Mercedes Benz bifreiða verða alrafknúnar frá árinu 2025. Fjárfesting sem nemur 40 milljörðum evra.

Þýski bifreiðaframleiðandinn Daimler stefnir að því að framleiða eingöngu rafknúnar Mercedes-Benz bifreiðar áður en áratugurinn er liðinn, eftir því sem markaðsaðstæður leyfa.

Samkvæmt frétt CNBC verða allar nýjar tegundir Benz bifreiða alrafknúnar frá árinu 2025. Þannig er áætlað að setja á markað þrjár nýjar alrafknúnar tegundir: MB.ES, sem verði miðlungsstórar til stórar farþegabifreiðar, AMG.EA, sem verði sportbifreiðar, og VAN.EA, fyrir léttar sendibifreiðar.

Frá og með árinu 2025 mun neytendum jafnframt gefast kostur á að kaupa alrafknúna gerð af öllum tegundum bifreiða sem félagið framleiðir.

„Hraði rafvæðingarinnar er að aukast - sérstaklega í flokki gæðabifreiða, hvar Mercedes-Benz staðsetur sig," er haft eftir Ola Källenius, sem leiðir bæði Daimler og Mercedes-Benz vörumerkið.

„Við færumst nær orkuskiptaviðsnúningnum og við verðum tilbúin þegar markaðir skipta alfarið yfir í rafmagn undir lok áratugarins," bætti hann við.

Í ljósi þessara fyrirætlana hefur Daimler gefið út að Mercedes-Benz muni gefa í við rannsóknir og þróun og munu fjárfestingar vegna rafknúinna bifreiða á milli áranna 2022 og 2030 nema yfir 40 milljörðum evra.

Mercedes mun í samstarfi við alþjóðlega samstarfsaðila skoða það að koma á fót verksmiðjum til að framleiða íhluti sem þarf í bifreiðarnar.