*

Ferðalög 8. janúar 2014

Einn af hverjum tólf sem skrifar um hótel, lýgur

Einn af hverjum tólf ferðamönnum kvartar þegar hann tjáir sig um hótel, meðal annars í þeim tilgangi að fá ókeypis gistingu næst.

Átta prósent af fólki, sem skrifar umsögn um hótel, er óheiðarlegt og skrifar illa um hótelið án þess að það sé fótur fyrir því. Ástæðurnar eru margvíslegar. Þetta kemur fram í rannsókn sem Schofields, tryggingafélag, gerði hjá 1900 breskum ferðamönnum.

Ástæðurnar sem óheiðarlegu ferðamennirnir gefa upp eru ýmsar. Oft er fólk að vonast eftir ókeypis gistingu hjá umræddu hóteli ef það skrifar illa um það. Einn ferðamaður sem viðurkenndi að hafa skrifað illa um hótel sagði að sér hafi hreinlega leiðst og verið að skoða hótel á netinu og fundið hótel sem fékk mjög góða gagnrýni. Hann hafi því ákveðið að skrifa illa um hótelið að gamni sínu. Eigandi gistiheimilis viðurkennir að hafa farið á gistiheimili samkeppnisaðila, gert óraunhæfar kröfur, og skrifað síðan mjög illa um það.

TripAdvisor er ein helsta ferðamálasíðan þar sem fólk getur lesið gagnrýni um hótel. Forsvarsmenn síðunnar taka skýrt fram að þeir fylgist vel með slíkum óheiðarleika. Þar er til dæmis tekið fyrir að fólk í samkeppni skrifi hvert um annað.

Þeir halda því fram að falskar umsagnir séu fátíðar en þeir séu með alls konar tæki og tól til að sjá hverjir skrifa óheiðarlega. Þá sé hægt að sjá mynstur ef einhver skrifar aftur og aftur illa um hótel og koma þannig upp um svikarana.

The Telegraph segir frá þessum svikum og prettum á síðu sinni hér.