*

Bílar 24. apríl 2013

Einn glæsilegasti Mercedes Benz fornbíll landsins

Bíllinn var hraðskreiðasta drossía síns tíma og var fluttur inn af forstjóra Ræsis, umboðsaðila Mercedes Benz á þeim tíma.

Einn glæsilegasti fornbíll landsins er af gerðinni Mercedes Benz 300 SEL, árgerð 1967. Bíllinn er í eigu Sveins Þorsteinssonar, hugbúnaðar­sérfræðings hjá Advania.

Bíllinn er kraftmesti fólksbíll sinnar tíðar, með 6,3 lítra 8 sílindra vél sem skilar um 300 hestöflum. Bíllinn er aðeins um 6 sekúndur úr kyrrstöðu í hundraðið og nær 227 km hraða á klukkustund.

Aðeins 6.526 bílar voru framleiddir af þessari gerð með sömu vél, sem var var fenginn úr Mercedes Benz 600 bílnum, stærstu drossu Benz á þeim tíma.

Var draumabíllinn minn þegar ég var 12 ára

„Þetta var draumabíllinn minn þegar ég var 12 ára. Geir Þorsteinsson, föðurbróðir minn og fyrrum forstjóri Ræsis, átti bílinn á þeim tíma. Hann flutti hann til landsins árið 1971 og átti hann í um 15 ár.

Síðan fór bíllinn á flakk og það var mikil tilviljun að ég eignaðist hann árið 2002. Ég þurfti að gera mjög mikið fyrir bílinn. Við tóku miklar endurbætur til að koma honum í það stand að hægt væri að keyra hann.

Þetta er bíll sem tengist mér og minni æsku og því hef ég sérstaklega gaman af honum. Ég keyri hann aðallega yfir sumartímann, aðallega stutta túra þó. Þetta er afar skemmtilegur og góður bíll,“ segir Sveinn.

Utan 300 SEL bílsins á Sveinn þrjá aðra Mercedes Benz bifreiðar sem eru fornbílar eða stutt í að komist í þann heiðursflokk.

Nánar er fjallað um bíla Sveins í Bílar sem fylgdi Viðskiptablaðinu á fimmtudaginn. Áskrifendur geta nálgast blaðið HÉR.

 

Það eru aðeins örfáir bílar sömu gerðar til á Íslandi, flestir 280 en ekki 300 eins og bíll Sveins. Meðal þekktra bíla sömu gerðar eru ráðherrabílar Jóhanns Hafstein og Gylfa Þ. Gíslasonar. Bíll Jóhanns er ónýtur en bíll Gylfa er þarfnast uppgerðar. Einn bíll sömu gerðar er til sölu og kostar hann 2,9 milljónir króna.

Afturhluti bílsins er lengri en á grunngerðinni. Því er meira rými fyrir farþega í aftursæti. Ýmist eru bílarnir S, SE eða SEL. 

 

SEL er skammstöfun á Sonderklasse, Einspritzung og Lange. Orðin merkja sérstakur bíll, innspýting og langur. 

Hér má sjá bílinn í tíð eldri eiganda.Ekki verður betur séð en bíllinn hafi verið upprunalega blár.