*

Veiði 23. júlí 2016

Eins og að mæta Mike Tyson

Tónlistarmaðurinn Bubbi Morthens átti ótrúlega veiði á Nessvæðinu í Laxá í Aðaldal fyrr í mánuðinum.

Alexander F. Einarsson

Bubbi Morthens, einn þekktasti tónlistarmaður okkar Íslendinga, veiddi fjóra svakalega stórlaxa á sama deginum þar sem hann var við veiðar á Nessvæðinu í Laxá í Aðaldal í síðustu viku. Veiði Bubba var nánast fordæmalaus, en tveir laxanna voru 100 sentimetrar og tveir þeirra voru 101 sentimetrar.

Allir laxarnir bitu á Metallicu flugu eftir Pétur Steingrímsson, en þeir voru 20 til 22 pund að þyngd. Þrjá af löxunum veiddi Bubbi á tveggja klukkustunda kafla en sá síðasti kom nokkrum klukkustundum síðar.

„Þetta er algerlega fáheyrt, Guðirnir eru með skrítinn húmor,“ segir Bubbi í samtali við Viðskiptablaðið um þessa mögnuðu veiði.

„Tvo fiskanna tók ég á hinum fornfræga stað Höfðahyl, þar sem Jakob Hafstein tók þann 10. júlí 1942 einn 36 punda hæng á Jock Scott flugu. Þetta er frægur stórlaxastaður.“

Áðurnefndur hængur sem Jakob V. Hafstein heitinn veiddi telst einn stærsti fluguveiddi laxinn í Íslandssögunni og eru flestir stærstu laxarnir sem veiðast yfirleitt settir í samhengi við þann fornfræga lax.

Missti stærsta lax sem hann hefur séð

Bubbi var nálægt því að slá sjálfum Jakobi heitnum við á dögunum eða að minnsta kosti komast honum ansi nærri. Ekki er nóg með að hann hafi veitt áðurnefnda fjóra laxa sem voru yfir 20 pundunum heldur háði hann baráttu við stærsta lax sem hann hefur nokkurn tíma séð.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð.