*

Bílar 7. janúar 2015

Einstakur Geländewagen

Geländewagen er einn merkilegasti bíll sem Mercedes-Benz hefur framleitt. Orðið er þýskt og merkir einfaldlega jeppi.

Hugmyndavinnan hófst árið 1972 og var þá ákveðið að bjóða hann í herútgáfu og útgáfu fyrir almenning. Um samstarfsverkefni var að ræða milli Daimler Benz og Steyr-Puch í Graz í Austurríki. Jeppinn bar nokkur nöfn í upphafi. Mercedes-Benz G Wagen,Puch G og Peugeot P4. Sá síðastnefndi var með frönskum vélum og var nánast eingöngu seldur til franska hersins. Árið 1994 var framleiðslunni hætt undir öðrum nöfnum og í dag nefnist bíllinn Mercedes-Benz G-Class.

Páfinn fékk G

Páfinn í Róm fékk sérstaka útgáfu af jeppanum árið 1980 og annan árið 2007. Jeppinn var fyrst seldur í Bandaríkjunum árið 2002 þegar gerðar voru breytingar á honum til að mæta bandarískum reglum. Grár markaður hafði myndast upp úr 1980 með jeppann vestanhafs. Bílar voru fluttir frá Evrópu, þeim breytt á kostnaðarsaman hátt í samræmi við bandarískar reglur og seldir til mjög fjársterkra kaupenda.

Framleiðslan nálgast 250.000

Herjepparnir voru mjög áberandi framan af en í seinni tíð hafa lúxusútgáfur af jeppanum tekið yfir. Framleiðslan var 4.000-6.000 jeppar fyrstu árin. Að meðaltali voru framleiddir 6.600 jeppar á ári fram til 2009 en alls hafa verið framleiddur um um 230.000 eintök. Framleiðslan hefur verið aukin á síðustu árum vegna vaxandi eftirspurnar og verða framleidd um 10.000 einstök á næsta ári, en verksmiðjan í Graz var endurnýjuð í haust.

Nánar er fjallað um málið í áramótatímariti Viðskiptablaðsins. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð.

Stikkorð: Mercedes-Benz  • Geländewagen