*

Ferðalög & útivist 27. maí 2012

Einstök upplifun á hálendinu

Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ, er áhugamaður um hálendið og jeppaferðir. Hann segir það einstakt að njóta hálendis í sól og blíðu.

„Það sem er næst í tíma er þegar við fórum nokkrir félagar saman á sumardaginn fyrsta og keyrðum ansi víða. Það var mikill snjór á hálendinu og frosið þannig að við náðum að fara á þremur dögum ótrúlega víða. M.a. annars á Hágöngur, Túnafellsjökul, Axarsund, Torfajökul, Laugarfell og víðar á jeppum. Þetta er ótrúlega skemmtileg leið en yfirleitt ekki fær nema á vélsleðum. En aðstæður voru með þeim hætti að það var hægt að fara á jeppa. Það hefur löngum verið mitt áhugamál, fyrir utan göngur á sumrin, þessi jeppamennska. Að fá að njóta hálendisins í sól og blíðu í frosti er alveg einstök upplifun,“ segir Gylfi Arnbjörnsson spurður um eftirminnilegt ferðalag sem hann hefur farið í.

Eitt af því sem gert var í ferðinni var að snyrta skeggið en sú athöfn fór fram á Laugarfelli.

„Það var meðal annars viðfangsefni þessara ferðar, að bjóða sumarið velkomið,“ segir Gylfi en játar þó að hitinn hafi reyndar aðeins látið bíða eftir sér eftir að sumardagurinn fyrsti gekk í garð. Nú er hins vegar búið að loka hálendinu og hálendisjeppaferðinar víkja fyrir fjallgöngum.