*

Ferðalög & útivist 24. febrúar 2020

Eitt fallegasta aðflugið á Ísafirði

Einkaþotufyrirtæki velur Ísafjarðarflugvöll meðal evrópskra flugvalla í úrtak en hægt er að kjósa til 15. mars.

Lesendur heimasíðu einkaþotusölufélagsins PrivateFly hafa valið Ísafjarðarflugvöll í úrtak fyrir val sitt á áfangastöðum með fallegasta aðflugið. Félagið hefur á hverju ári staðið fyrir slíku vali, fyrir sex heimshluta, en nú hafa 74 flugvellir verið valdir á úrtakslista.

Er flugvöllurinn undir Erninum í Skutulsfirði, gegnt bænum Ísafirði við Ísafjarðardjúp á Vestfjörðum, einn þrettán evrópskra flugvalla sem komist hafa í úrtakið, en kosningin fer fram til 15. mars næstkomandi.

„Um er að ræða jafnt stóra sem smáa flugvelli og mjög fjölbreytt flugvallarstæði. Á listanum eru meðal annars flugvellir í borgarlandslagi, eyjaflugvellir, vellir með aðflug frá strönd og vellir sem staðsettir eru á fjallstoppi,“ segir meðal annars um málið á vef Isavia.

„Flugvallarstæði Ísafjarðarflugvallar hefur lengi verið talið einstakt og hefur völlurinn oft komist á lista erlendra vefja yfir áhugaverð aðflug. Flugvöllurinn er enda staðsettur við sjó umkringdur háum og bröttum fjöllum í fremur þröngum firði. Við aðflugið er flogið inn Skutulsfjörð, meðfram fjallshlíð yfir byggðina á Ísafirði og tekin 180 gráðu beygja til vinstri í fjarðarbotninum áður en lent er á flugbrautinni hinum megin fjarðarins. Við réttar veðuraðstæður er einnig hægt að lenda á hinum brautarendanum. Aðflugið úr þeirri átt krefst þess ekki að flogið sé meðfram fjöllum að fjarðarbotni áður en lent er og þykir mörgum það því ekki jafn mikilfenglegt.“

Á vef Isavia má jafnframt sjá aðflugsmyndbönd að Ísafjarðarflugvelli en hér er eitt þeirra:

Stikkorð: Ísafjörður  • einkaþotur  • PrivateFly  • flugvöllur  • aðflug