*

Sport & peningar 22. júní 2015

Eitt frægasta knattspyrnufélag Ítalíu gjaldþrota

Ítalska knattspyrnufélagið Parma mun þurfa að spila í fjórðu efstu deild á næsta tímabili.

Eitt frægasta knattspyrnufélag Ítalíu, Parma, varð í dag formlega gjaldþrota og eru afleiðingarnar mjög alvarlegar. Er liðið í kjölfarið fallið alla leið niður í Seríu D, eða fjórðu efstu deild Ítalíu.

Parma fell úr efstu deild á nýafstöðnu tímabili og hefði að öllu óbreyttu spilað í Seríu B. Félagið skuldar hins vegar 75 milljónir evra og gat ekki staðið í skilum. Vegna gjaldþrotsins þarf liðið hins vegar að sætta sig við að spila í áhugamannadeild.

Það var nokkuð ljóst í hvað stefndi hjá Parma, en félagið átti í vandræðum með að borga leikmönnum sínum laun stærstan hluta síðasta tímabils. Ekki hjálpaði til þegar fréttir bárust af því að forseti félagsins, Giampietro Manenti, hefði verið handtekinn vegan gruns um fjárdrátt og peningaþvætti.

Félagið var lýst gjaldþrota og slitastjórn fengin til að stýra því út leiktíðina. Vonast var til þess að fjárfestar kæmu Parma til bjargar, en félagið hefði þurft að finna nýjan eiganda sem væri tilbúinn að borga 22,4 milljónir evra sem leikmenn og starfsmenn eiga inni í laun. Allt kom fyrir ekki og gjaldþrot varð endanleg niðurstaða í dag.

Stikkorð: Ítalía  • fótbolti  • Parma