*

Hitt og þetta 13. ágúst 2019

Eitt þekktasta sumarhúsið í HBO þætti

Sumarhús Sigurðar Einarssonar, fyrrverandi stjórnarformanns Kaupþings, er tökustaður í nýrri þáttaröð af Succession.

Sumarhúsi Sigurðar Einarssonar, fyrrverandi stjórnarformanns Kaupþings, bregður fyrir í nýrri stiklu fyrir aðra þáttaröð bandarísku sjónvarpsþáttanna Succession. Upphafsatriði annars þáttar í hinni nýju seríu er tekið upp á jörðinni Veiðilæk í Norðurárdal í Borgarfirði.

Umrætt sumarhús er um 840 fermetrar að stærð en það er í eigu eiginkonu Sigurðar. Húsið er hið glæsilegasta en það hefur meðal annars að geyma vínkjallara, tvöfaldan bílskúr og gufuböð. Fjallað var um húsið og eignarhald á því af DV fyrr á þessu ári.

Stikluna er að finna á vef Vísis en þar sést Ingvari E. Sigurðssyni og Kendall Roy bregða fyrir. Sé stiklan könnuð sjást Vikrafellið og Bifröst í bakgrunni og þá má sjá glitta í Hraunsnefsöxlina í gegnum skýin. Áhorfendur sjá einnig eilítið inn í sumarhúsið en umræða um það hefur reglulega sprottið upp síðastliðinn áratug.