*

Menning & listir 4. október 2014

Eitthvað nýtt

Unnsteinn Manuel Stefánsson stofnaði Retro Stefson fyrir tæpum tíu árum og er nú að stíga sín fyrstu skref sem sólótónlistarmaður.

Kári Finnsson

Þegar ég sest niður með Unnsteini á Bergsson mathúsi til að snæða með honum hádegisverð hef ég leik með að biðjast afsökunar. Helgina áður hafði hann haldið sína fyrstu sólótónleika á Kex Hostel en ég gat ekki komist. Hann fyrirgefur mér með bros á vör og segir þá hafa gengið mjög vel þrátt fyrir hversu stressaður hann var, sem kemur mér á óvart vegna þess að hann hefur yfir að búa margra ára reynslu af tónleikahaldi.

„Fyrir tónleikana fór ég í gufu í Laugum til að slaka á en þegar ég var að keyra að Kexinu var ég búinn að búa til tíu mismunandi afsakanir til að hætta við þetta allt saman,“ segir Unnsteinn. „Síðan mættu eiginlega allir á þá. Mamma og pabbi, sem höfðu ekki hist síðan í útskriftinni minni, sátu á sama borði. Oftast þegar ég er að spila nýtt efni þá er það bara eitt og eitt lag sem bætist inn í prógrammið. En þetta voru sex ný lög og ég var að spila í fyrsta sinn „live“ sjö lög.“

Enginn grætur Íslending

Unnsteinn kynnti sólóferil sinn formlega þegar hann gaf út lagið „Enginn grætur“ á dögunum. Lagið varð til í febrúar þegar hann dvaldi í Berlín við að semja tónlist. „Þá var ég yfirleitt að vinna á nóttunni og vaknaði um eftirmiðdaginn,“ segir Unnsteinn. „Þá tók ég lest niður í Kreutzberg á víetnamskan stað og pantaði mér alltaf sama réttinn – núðlusúpu númer sjö. Ég var með aðgang að stúdíói þarna nálægt sem Hildur Guðnadóttir var með en þar var fullt af strengjahljóðfærum sem var líka ákveðinn innblástur fyrir mig. Ég byrjaði að prófa mig áfram með strengi og samdi mikið „instrumental“ efni. Á þessum tíma talaði ég ekki við neinn í marga daga.

Ég var að prófa mig áfram með þetta lag í langan tíma en á einhverjum tímapunkti þurfti ég að fara að búa til sönglínur, annars yrði það bara stopp. Þá tók ég upp gítarinn og byrjaði að spila einhverja hljóma og syngja með. Það eru oft nokkur ljóð sem ég syng bara til að koma mér í gang. Af einhverri ástæðu söng ég Enginn grætur íslending eftir Jónas Hallgrímsson ofan í þetta lag, þannig að það er dálítið skringilega upp sett – þetta er bara nákvæmlega eins og ég söng þetta með kassagítarnum.“

Unnsteinn Manuel er í ítarlegu viðtali í Eftir vinnu, fylgiriti Viðskiptablaðsins. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð.