*

Bílar 25. desember 2016

Ekið um hættusvæði á olíubíl

Gunnar Bjarni Ólafsson atvinnubílstjóri er svæðisstjóri fyrir Skeljung á Vestfjörðum.

Hann ekur olíubílum um alla Vestfirðina og segir að það sé oft krefjandi akstur og þá sérstaklega fyrir vetrartímann þegar veður eru válynd. Ekki má gleyma að farmurinn hjá honum er mörg þúsund lítrar af olíu.

Ég tók meiraprófið árið 1988 í Bolungarvík þar sem ég var íþróttakennari. Ég gerðist olíubílstjóri hjá Skeljungi í Bolungarvík það ár. Ég flutti síðan til Ísafjarðar 1989 er ég fékk íþróttakennarastöðuna við Menntaskólann á Ísafirði.

Ég ákvað að sölsa um og fór á sjóinn er nýja Guðbjörg ÍS 46 kom til Ísafjarðar 1994 og var þar til 1998. Þá skipti ég um skip og fór á Júlíus Geirmundsson. Ég ákvað að koma síðan í land aftur eftir viðburðarík 14 ár á sjónum og hóf störf sem svæðisstjóri og olíubílstjóri hjá Skeljungi í Bolungarvík árið 2008,“ segir Gunnar.

Dreifingarsvæðið hans er skilgreint frá Hólmavík að Patreksfirði.

„Mestallur aksturinn hjá mér er samt sem áður á norðanverðum Vestfjörðum en síðustu tvö ár höfum við verið með bíl sem er staðsettur á Patreksfirði sem Akstur og köfun sjá um og dreifa fyrir okkur þegar Hrafnseyrar- og Dynjandisheiðar eru ófærar sem eru svona 5-6 mánuði á ári en yfir sumartímann komum við inn í. Svo má ekki gleyma dreifingunni í Reykjavík sem sér alfarið um bensínið hingað vestur.“

Skálavík fallegasti staðurinn

Yfir sumartímann og í góðum veðrum finnst mér yndislegt að aka um Vestfirðina og heimsækja þessi fallegu sjávarþorp. Þar er bæði fallegt um að lítast og gott fólk sem þar býr. Það eru margir fallegir staðir á Vestfjörðum.

Fallegasti staðurinn finnst mér Skálavík í Bolungarvík. Þar er sumarbústaðabyggð sem ég heimsæki einu sinni á ári þegar ég fer með olíu til sumarbústaðareigenda. Þar er alveg yndislegt og ég get alveg gleymt mér þar í fegurðinni,“ segir Gunnar ennfremur.

Gunnar viðurkennir að þetta sé oft mjög krefjandi vinna. Minnisstæðast segir hann hafa verið þegar óveður skall á Vestfirði 28. desember árið 2012.

„Það fór rafmagn af öllum Vestfjörðum og sett var af stað varaafl sem Orkubú Vestfjarða setur í gang, þegar rafmagnið fer af. Við sjáum um olíuna á þessar varaaflsstöðvar sem staðsettar eru í Bolungarvík, Ísafirði, á Súðavík, Flateyri, Þingeyri og Suðureyri.”

Snarvitlaust veður og snjóflóðahætta

Gunnar heldur áfram að rifja upp óveðrið.

„Það var snarvitlaust veður þennan dag. Yfirmaður minn Lúðvík Björnsson, sem þá var yfirmaður fyrirtækjasviðs Skeljungs, hafði samband við mig um morguninn og við fórum yfir stöðuna. Ég var búinn að fylla olíu á allar varaaflsstöðvar deginum áður því þetta veður var yfirvofandi. Hnífsdalsvegur og Súðavíkurhlíðin lokuðust og það voru allir fjallsvegir lokaðir auk láglendisveganna. Þeir lokuðust út af snjóflóðum.

Hinn 30. desember fer ég af stað til Bolungarvíkur til að fara með olíu á varaaflsstöðina þar. Ég hafði samband við lögregluna og lét hana vita af áætlun minni. Þeir höfðu samband við almannavarnir og það er ákveðið að opna hlíðina þótt enn væri snjóflóðahætta. Ég fékk snjóflóðaýlu hjá lögreglunni og ek af stað þegar leyfi var komið. Mér var fylgt í gegnum Eyrarhlíðina.

Það fór hrollur um mig að aka þessa leið vitandi að það gæti komið snjóflóð niður hlíðina en það var snjóruðningstæki á undan mér. Aksturinn var ansi krefjandi en þetta hafðist allt sem betur fer og ég komst heill á húfi til Bolungarvíkur,“ segir hann.

Keyrt í gegnum hættusvæði

„Björgunarsveitin í Bolungarvík og Ísafirði fylgdu mér til baka í gegnum hlíðina.

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift.