*

Bílar 14. apríl 2019

Ekið um snævi þakta jökla

Tryggvi Traustason er mikill áhugamaður um jeppa og ferðalög.

Tryggvi rekur fyrirtækið Stýrivélaþjónustuna ehf., sem sér um ýmislegt fyrir sjávarútveginn m.a. vökvakerfi skipa, krana ofl. Fyrirtækið hefur einnig séð um að breyta bílum á ýmsan hátt allt frá minni lagfæringum upp í heildarsmíði á bílum. Fyrirtækið sér m.a. um að setja úrhleypikerfi í bíla þannig að þrýstingi dekkja sé stjórnað innan úr bílnum.

„Ég hef alltaf verið mikill Toyota-maður og þeir hafa reynst mér vel. Þessi bíll bauðst mér lítið ekinn fyrir þremur árum og ég ákvað að kaupa hann. Ég breytti bílnum, setti undir hann hásingu að framan, 46 tommu dekk, extra lágan gírkassa ofl. Ég lækkaði drifin og styrkti þau og allt það sem þarf til að takast á við þessi stóru dekk. Jeppinn er með 4,2 lítra vél sem hefur reynst mjög vel í Toyota. Þeir eru að vísu hættir að framleiða hana í dag. En þær eru áreiðanlegar og nokkuð öflugar,“ segir hann. 

Jeppinn búinn tólum og tækjum

Tryggvi er búinn að breyta sex bílum eins og hann gerði með sinn eigin bíl. Einnig hefur hann breytt Land Cruiser 150 fyrir björgunarsveit á 42 tommu dekk og Wrangler Rubicon einnig á 46 tommu dekk með stórum V8 mótor ofl.

„Í Land Cruiser 100 bílinn er ég búinn að setja alls kyns tól og tæki, staðsetningartæki ofl. til að rata um hálendið. Þegar maður keyrir um snævi þakta jökla þá erum við með leiðina niðurneglda í tölvuna hjá okkur, svo við getum vistað hana í staðsetningartækinu. Þá eru þessar leiðir geymdar inni í tækjunum og við eigum þær til framtíðar. Jeppinn minn er útbúinn ríkum eldsneytistanki þannig að ég verði ekki eldsneytislaus uppi á jökli. Þetta er kallaður aukatankur. Minn bíll ber t.d. 320 lítra af dísilolíu. Það er slatti og dugar í allar stærri ferðir. Ég hef verið að setja úrhleypikerfi í bíla þannig að þrýstingi dekkja sé stjórnað innan úr bílnum. Ég er með svoleiðis einmitt í jeppanum mínum. Það er gríðarlega mikið atriði upp á drifgetu bílanna í snjó,“ segir Tryggvi.

Nánar er fjallað um málið í sérblaðinu Bílar, fylgiriti Viðskiptablaðsins. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér.