*

Menning & listir 22. júní 2014

Ekkert kemur upp úr engu

Breski listamaðurinn Peter Liversidge ræddi við Viðskiptablaðið um nýja sýningu sína í gallerí i8.

Kári Finnsson

Breski listamaðurinn Peter Liversidge opnaði nýverið sýninguna C-O-N-T-I-N-U-A-T-I-O-N í gallerí i8 en sýningin er unnin upp úr 24 tillögum að verkum sem ýmist verða að veruleika á sýningunni eða ekki. Hér er síðasti hluti af viðtali Viðskiptablaðsins við listamanninn. Hér má sjá fyrsta og annan hluta viðtalsins.

Jafnvel þótt verkin eru hvorki árangursrík né misheppnuð, þá hlýtur þú að finna fyrir því að einhver þeirra séu ákveðið afrek og önnur eins konar vonbrigði?

Ef ég á að vera alveg hreinskilinn þá finn ég ekki fyrir slíku. Ég finn ekki fyrir því að eitthvað hafi farið úrskeiðis. Bara tilhugsunin um það að nú erum við hér að tala saman á Íslandi í galleríi þar sem er búið að setja upp sýningu eftir mig. Ef einhver hefði sagt mér að ég væri að gera þetta núna fyrir nokkrum árum síðan þá hefði ég bara hugsað: í alvöru?

Það eru margar mismunandi leiðir til að mæla árangur. Eins og t.d. hversu margir mæta á sýninguna eða hversu margir kaupa verkin. En það gerir efnislegu og óefnislegu tillögurnar ekkert árangursríkari ef þær seljast. Það gæti hljómað svolítið einkennilega, en þetta snýst eiginlega bara allt um verkin - að þau séu þarna, og það er það sem skiptir máli.

Við eigum það til að mæla allt eftir því hvort það sé árangursríkt eða misheppnað. Við stefnum yfirleitt að einhverju marki eða einhverju afreki, en á endanum verðum við alltaf fyrir ákveðnum vonbrigðum.

Þetta er að mörgu leyti svipað - og þetta er hræðileg samlíking - en ég man eftir því þegar ég var að læra að keyra á sínum tíma. Þá sagði pabbi minn mér að maður ekki búinn að læra að keyra bíl fyrr en maður hefur náð bílprófinu. Ég sem var að vona að ég myndi vita meira og minna hvað ég væri að gera þegar komið væri að prófinu! En að sjálfsögðu gerist þetta hægt og bítandi. Þú færð tilfinningu fyrir veginum, hraða, umferð og fleiru - alls konar ólíkir hlutir sem þú getur ekki lært fyrr en þú bara framkvæmir þá. Það er svolítið eins og þegar ég sýni verkin - og hér kemur hræðilega samlíkingin - þú veist ekki almennilega hvernig sýningin kemur út fyrr en þú framkvæmir hana. Ég hafði ákveðna hugmynd um að sýningin myndi verða góð og auðvitað finn ég það á mér að eitthvað verði gott eða slæmt. Stundum virka hlutirnir einfaldlega ekki.

Hvernig vannst þú þessa sýningu?

Ég kom hérna í október á síðasta ári fyrir Works on paper sýninguna í i8. Við byrjuðum á því að ræða möguleikann á því að ég myndi sýna hérna og ég varð strax mjög spenntur fyrir því. Ekki bara vegna þess að i8 er mjög þekkt gallerí heldur líka vegna þess að það er staðsett á Íslandi. Ég skrifaði tillögurnar í kringum páskana en Reglurnar skrifaði ég nokkru fyrr svo við gætum prentað þær út. En eftir því sem ferlið við að skrifa tillögurnar vindur upp á sig þá leita ég reglulega til minnispunkta, minninga eða hljóð og myndbandsupptakna sem ég hef í fórum mínum.

Þegar ég hef rætt við fólk um verkin þín þá spyrja sumir mig hvort vinnudagurinn þinn sé bara fólginn í því að setjast niður við skrifborð og skrifa tillögur þar til þú þarft að fara heim.

Það er reyndar ekkert svo fjarri lagi. Ég veit ekki hvort þetta sé eins og að mála málverk en það kemur ekkert upp úr engu. Ég byrjaði á því að skrifa niður minnispunkta vegna þess að minnið mitt er ekki alveg nógu gott.

Það eru 24 tillögur í þessari sýningu en ég hafði, hóflega metið, á milli 70 og 80 tillögur tilbúnar fyrir hana. Þegar ég sest niður og skrifa tillögurnar þá spretta aðrar tillögur í hugann. Tökum sem dæmi neonverkið fyrir utan galleríið, ég vildi fá eins konar skipti á milli afstöðu tveggja svipaðra orða. BEFORE/AFTER (fyrir/eftir) snýst meira um huglæga þáttinn en efnislegi þátturinn er augljóslega um það að eitthvað eitt sé yfir einhverju öðru, en hvað þetta eitthvað er vitum við ekki. Verkið er líka upplýst eftir handahófskenndri röð. Það sem það þýðir er að eitt orð er lýst og annað er slökkt með handahófskenndum hætti. Það getur verið á AFTER í þrjá daga og svo á BEFORE í eina mínútu. Þetta er reyndar ekki algjörlega handahófskennt, þetta er sniðið til í þeim skilningi að það er í rauninni ekki til neitt ferli sem er raunverulega handahófskennt. Það er til lýsing á hinu óútskýranlega en það er óútskýrt vegna þess að þú hefur ekki tíma til að taka tillit til alls þess sem hefur gerst.

Þetta er svipað og þegar þú stillir I-Podinn þinn á shuffle. Það er ekki handahófskennt lagaval vegna þess að ef það væri raunverulega handahófskennt þá myndir þú stundum heyra sama lagið tuttugu sinnum í röð.

Nákvæmlega. Þetta er mjög góð útskýringing á handahófskenndu ferli. Það sem gerist er að þegar þú kastar peningi og þú sérð að höfuðhliðin kom upp, þá ertu 100% viss um útkomuna. Ef þú sýnir mér ekki peninginn þá hef ég ekki hugmynd um útkomuna, þannig að líkurnar hafa ekkert breyst fyrir mér. En, ef ég skoða peninginn og sé að hann lenti á höfuðhliðinni og kasta honum aftur, þá lendi ég bara aftur á byrjunarreit. Þetta með að við höfum í raun ekki stjórn á neinu er áhugavert, en dæmið með peninginn er ágætt, vegna þess að þú færð í raun eina af tveimur niðurstöðum.

Ég fór að hugsa aðeins um þetta starf, að vera listamaður. Fólk gæti eflaust hugsað, þegar það sér þessar tillögur og sýninguna að þetta eru ekki raunveruleg listaverk - þetta er bara einhver gæi að grínast.

Fyrir mér er þetta bara vinna, og það gæti virst mjög skrítið vegna þess að flestir myndu segja að svo væri ekki. Fram til ársins 2009 þá vann ég við alls konar ömurleg störf. Ég var t.d. öryggisvörður. Það er mjög mikil vinna fólgin í því að búa til listaverk - ég á ekki við að það sé líkamlega erfitt eins og að grafa eftir vegum eða að leggja hellur.

Flestir halda bara að þetta sé bara áhugamál.

Þegar ég var farinn að vinna fimm, sex eða sjö daga vikunnar sem öryggisvörður þegar ég flutti fyrst til London þá tók ég list minni alveg jafn alvarlega og ég tek henni núna. Nú hef ég bara meiri tíma til að sinna henni. Ég held að það sé mikilvægt að vera meðvitaður um það að það er enginn ákveðinn tímapunktur þar sem þú verður allt í einu listamaður eða hættir að vera listamaður - þetta er bara ein leið til að nálgast það sem þú gerir.

Sýningin C-O-N-T-I-N-U-A-T-I-O-N eftir Peter Liversidge stendur til 9. ágúst í i8 gallerí.