*

Bílar 9. nóvember 2018

Ekkert lamb að leika sér við

Urus er fyrsti sportjeppinn frá Lamborghini sem kemur á markað.

Róbert Róbertsson

Mér bauðst sú mikla skemmtun á dögunum að reynsluaka Lamborghini Urus, nýja ofursportjeppanum frá ítalska bílaframleiðandanum. Þar með rættist gamall draumur að fá að aka Lamborghini. Þessi geggjaði bíll stóð sannarlega undir væntingum. Hann má það líka alveg enda kostar hann litlar 40 milljónir króna.

Urus er fyrsti sportjeppinn frá Lamborghini sem kemur á markað. Urus var kynntur til leiks í fyrra en fór í sölu fyrr á þessu ári. Lamborghini ákvað að prófa bílinn á Íslandi sem er vel en hingað komu erlendis bílablaðamenn til að prófa hann og svo fengu íslenskir bílablaðamenn einnig tækifæri að reynsluaka þessum volduga sportjeppa. Hekla aðstoðaði við reynsluaksturinn hér á landi en fyrirtækið er umboðsaðili Volkswagen en Lamborghini tilheyrir í dag Volkswagen samsteypunni.

 650 hestöfl undir húddinu

Lamborghini er frægt fyrir aflmiklar vélar. Það er raunar með ólíkindum að bílaframleiðandinn hafi aldrei farið út í kappakstur með bíla sína eins og Ferrari en vélar frá Lamborghini hafa samt verið í öðrum keppnisbílum í gegnum tíðina. Það er ekki að undra. Það má segja að Lamborghini Urus sé hreinræktaður sportbíll í líki sportjeppa. Lambo er sannarlega ekkert lamb að leika sér við. Þetta er urrandi tryllitæki með gríðarlega aflmikla 4 lítra, V6 vél með tvöfaldri forþjöppu sem skilar alls 650 hestöflum. Hámarkstogið er 850 Nm. Sportjeppinn er aðeins 3,6 sekúndur úr kyrrstöðu í hundraðið og 12,4 sekúndur í tvö hundruð. Hámarkshraðinn er 305 km/klst og geri aðrir sportjeppar betur. Krafmeiri bíll hefur líklega sjaldan eða aldrei verið ekið á Suðurlandi. Þetta er enginn sparigrís. Eyðslan er uppgefin 12,6 lítrar á hundraðið í blönduðum akstri en það var nú eitthvað meira í þessum akstri enda var tankurinn tæmdur. Það var svo sem enginn sparakstur heldur. CO2 losunin er 292 g/km þannig að Urus fær heldur enginn umhverfisverðlaun.

Geggjaður í akstri  

Það var líka geggjuð tilfinning að stíga vel á bensíngjöfina á beinum vegarköflum þegar umferð var engin á móti. Þessi Lambo er ekkert lamb að leika sér við. Bíllinn rýkur upp eins og eldflaug enda gríðarlegt afl undir húddinu. Og þegar gefið er inn koma magnaðar drunur frá vélinni sem gefa þessu öllu saman enn meiri upplifun. Aksturseiginleikar bílsins eru ótrúlega góðir og stýringin og öll svörun bílsins er fyrsta flokks. Ýmsar akstursstillingar eru í boði í bílnum sem gerir aksturinn enn skemmtilegri og þær eru allar á ítölsku sem er líka gaman. Start/ stop hnappurinn á bílnum lítur út eins og ræsir fyrir eldflaugaskot með rauðu hylki yfir sem þarf að lyfta upp svo hægt sé að ýta á hnappinn. Gírskiptingarnar eru á skemmtilegum stöðum. Þetta er allt eins og í draumi.

Lygileg athygli 

Athyglin sem bíllinn fékk var lyginni líkust. Ferðamenn tóku myndir af bílnum í gríð og erg þegar stoppað var við Gullfoss og Geysi. Þegar stoppað var í kvöldverði á Stokkseyri voru allmargir bæjarbúar komnir til að mynda bílinn fyrir utan veitingastaðinn Við fjöruborðið. Og í höfuðborginni sneru margir sig sömuleiðis nán ast úr hálsliðnum þegar þeir sáu bílinn. Það er ekkert skrítið enda hefur Lamborghini mér vitanlega ekki sést hér á götum áður.

Það hafa skipst á skin og skúrir í sögu Lamborghini síðan Ítalski iðnjöfurinn Feruccio Lamborghini stofnaði fyrirtækið árið 1963 í Sant Agata Bolognese í EmiliaRomagna héraðinu þar sem höfuðstöðvarnar eru enn.

Með þennan nýja sportjeppa auk hinna spennandi sportbíla Aventador og Huracán mun Lamborghini eiga góðan séns á að halda áfram góðu gengi en fyrirtækið hefur sett sölumet sjö ár í röð.