*

Tölvur & tækni 2. mars 2015

Ekkert plast og þynnri en iPhone

Samsung kynnti um helgina nýjustu farsímana en það eru Galaxy S6 og Galaxy S6 Edge, sem er með ávölu gleri á hliðunum.

Suður-kóreska fyrirtækið Samsung kynnti í gær nýja farsíma. Símarnir, sem nefnast Samsung Galaxy S6 og Samsung Galaxy S6 Edge, fara ekki í almenna sölu í Evrópu og Bandaríkjunum fyrr en í apríl.

Gagnrýnendur er flestir sammála um að með nýja símanum hafi Samsung tekið stórt skref fram á við. Eitt stærsta skrefið var að henda plastinu en Samsung hefur lengi verið gagnrýnt fyrir að nota plast í rándýra síma á meðan keppinautarnir nota dýrari efni.  Samsung-símarnir eru nú úr gleri og áli.  Auk þess er S6 Edge týpan með ávölu gleri á hliðunum. Hægt verður að fá símana í fjórum litum, hvítum, svörtum, gull-lituðum og tópas-bláum. Símarnir eru 0,1 mm þynnri en iPhone 6 símarnir.

Á nýju símunum hafa hátalararnir verið færðir.  Á S5-símunum voru þeir á bakhliðinni en á nýju símunum eru hátalarnir á botninum, við hliðina á innstungunni sem notuð er þegar síminn er hlaðinn. Við þessa breytingu hafa hljóðgæðin aukist til muna.

Aðalmyndavélin er 16 megapixlar en myndavélin að framan er 5. Hægt verður að kveikja á myndvélinni með því að ýta tvisvar aðalhnappinn (home).

Nýju símarnir styðja líka Samsung Pay, sem búist er við að komi á markað í sumar. Samsung Pay, líkt og Apple Pay og Google Wallet, mun gera notandanum kleift að borga með símanum. Hægt verður að nota Samsung Pay á hefðbundna posa (traditional magnetic stripe readers), sem er eitthvað sem Apple og Google bjóða ekki upp á.