*

Bílar 14. febrúar 2016

Ekkert varir að eilífu

Land Rover Defender hefur verið framleiddur í 68 ár. Til stóð að framleiða jeppann aðeins í nokkur ár.

Land Rover Defender hefur verið framleiddur í 68 ár. Síðasti Defender-jeppinn rann af færibandinu í verksmiðju Land Rover í Solihull í Miðlöndunum bresku á dögunum.

Defender á sér mikla sögu. Reyndar fékk jeppinn ekki nafngiftina fyrr en árið 1983. Frá árinu 1948 hafa tvær milljónir bíla verið framleiddar. Bíllinn var hugsaður fyrir bændur og léttan iðnað en Willys-jeppinn var ofarlega í huga hönnuðarins Maurice Wilks við vinnuna.

Í upphafi átti jeppinn að verða svipaður Mercedes-Benz Unimog og til stóð að framleiða Land Rover aðeins í nokkur ár eða þangað til að grundvöllur væri aftur kominn fyrir framleiðslu á Rover.

Fljótt kom í ljós að jeppinn átti lengra líf framundan því eftirspurnin var mikil. Mikill skortur var á efnum þegar framleiðslan hófst. Yfirbygging Land Roversins hefur frá fyrsta degi verið úr álblöndu vegna þess hve erfitt var að fá stál. Lakkið á bílinn var fengið frá breska flughernum sem notaði það til að mála flugstjórnarklefana í vélunum sínum. Því var ljósgrænn eini liturinn í boði í byrjun.Því hefur verið haldið fram að Land Roverinn hafi verið fyrsti bíllinn sem helmingur jarðarbúa hafi fyrst séð.

Vélarnar hafa minnkað

Framenda bílsins var breytt árið 1971 til að koma stærri vél ofan í vélarrýmið. Þá var sett 8 sílendra Rover vél í jeppann. En reglur um útblástur hafa orðið strangari með árunum. Til að mæta þessum kröfum þurftu vélarnar að minnka aftur.

Á undanförnum árum hefur 2,2 lítra dísilvél verið í boði. Hún er aðeins 120 hestöfl og bíllinn er því 14 sekúndur í hundraðið. Það er fáheyrð tala í nútímabíl. Og akstureiginleikarnir eru ekkert sérstakir. Bilanatíðinni hefur verið há, ekki síst í eldri bílum. Það var reyndar stórt vandamál í breskri bílaframleiðslu um árabil en hefur lagast mikið, ekki síst eftir að þýskir verkfræðingar komu að Land Rover þegar BMW átti fyrirtækið á árunum 1994-2000.

Dýrkaður og dáður

Þrátt fyrir þetta hefur Defender notið gríðarlegra vinsælda og verið dáður af svo mörgum. Bíllinn er einn fárra „nútímabíla“ sem hafa sál og karakter. Nokkrar ástæður eru fyrir því að framleiðslunni er nú hætt.

Í fyrsta lagi er grunnhönnun bílsins sú sama og árið 1948. Svigrúm bílaframleiðandans er því mjög takmarkað til að auka þægindi ökumanns og farþega. Loftmótstaða 110 bílsins er 0,59 Cd. Á sama tíma er Range Rover Sport með 0,34. Því kemur jeppinn mjög illa út þar sem hann er skattlagður út frá eyðslu. Slík kerfi eru víðast hvar í Evrópu, líkt og á Íslandi.

Um 18 þúsund Land Rover Defender hafa selst á ári, síðustu ár. Það er ágætur fjöldi en framleiðslan er dýr því hún krefst mikils fjölda starfsmanna. Það er því skiljanlegt að ákvörðunin er tekin nú.

Einn af síðustu Defendernum seldist á 77 milljónir króna, eða 400 þúsund pund, sem er 15-falt meira en venjulegur bíll kostaði. Mikið var lagt í bílinn en hann var smíðaður í virðingarskyni við hinn trausta þjón. Ágóðinn rann til góðgerðamála.

Meðal þekktra Defender eigenda má nefna Elísabetu Bretadrottningu, leikarann Sean Connery, Fidel Castro Kúbueinráð, Michael Jordan körfuboltamann og Bítilinn Paul McCartney

Fjallað var um Land Rover Defender í Bílum, fylgiriti Viðskiptablaðsins. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu á vb.is.