*

Menning & listir 1. janúar 2013

Ekki kremja okkur til dauða!

Borgarleikhúsið frumsýndi leikritið Mýs og menn á milli jóla og nýárs. Ólafur Darri á þar stórleik, að mati Viðskiptablaðsins.

Jón Aðalsteinn Bergsvein
 - jon@vb.is

 

Ekki vantaði fyrirmennin á jólafrumsýningu Borgarleikhússins á leikritinu Mýs og menn á síðasta laugardagskvöldi nýliðins árs. Tveir fyrrverandi forsætisráðherrar voru í hópnum. Það gustaði í kringum Geir H. Haarde, fyrrverandi forsætisráðherra; Þorsteinn Pálsson var rólegur að vanda. Þá voru á staðnum nokkrir borgarfulltrúar, fyrrverandi borgarstjóri, stjórnmálamenn bæði núverandi og fyrrverandi, starfsfólk fjármálafyrirtækja og fleiri úr heimi menningar og viðskipta. Það var ekki fyrr en á leiðinni út að sýningu lokinni sem ég gekk fram á Jóhönnu Sigurðardóttur forsætisráðherra í fatahenginu.

Nánast er óþarfi er að tíunda efni leikritsins eftir bandaríska rithöfundinn John Steinbeck. Mýs og menn er margverðlaunað stykki, lesið í ræmur og fyrir löngu þekkt enda komið á miðjan áttræðisaldur. Nú er það í leikstjórn Jóns Páls Eyjólfssonar. Sögusviðið er kreppan á þriðja tug síðustu aldar. Þar segir af tveimur farandverkamönnum, George og Lennie, sem fara frá einum bæ til annars í leit að vinnu. Hinn þroskahamlaði Lennie er hælbíturinn, þröskuldurinn sem kemur í veg fyrir að draumur þeirra félaganna um að eignast eigin jörð verði að veruleika. Þetta er töff saga, sár og falleg. Ólafur Darri Ólafsson er framúrskarandi sem Lennie. Ólafur er í hreinskilni sagt fjarri góðu gamni. Lennie er á sviðinu og treggáfaður er hann. Þvílík er innlifunin og leikurinn æðislegur. Hann virkar svo einfaldur, svo sorglega mikill vanviti að ég finn til í hjartanu að nota orðið.

Hilmar Guðjónsson er góður sem George, félagi Lennie. Hann nær þó ekki mótleikara sínum upp að mitti. Þvílík er yfirvigtin í leiknum hjá Ólafi Darra. Allir leikarar skila sínu vel og því læt ég vera að kafa dýpra í þá. Enginn virðist á sjálfstýringu eða ofleika eins og stundum vill gerast. Takk fyrir það.

Leikmynd Ilmar Stefánsdóttur er af svipuðu kalíberi í Músum og mönnum og í öðrum verkum Borgarleikhússins upp á síðkastið. Hún er krafmikil; samanstendur af fjölmörgum sekkjum sem bæði mynda híbýli verkamannanna, skemmu og náttúruna. Þetta er áhrifamikil lausn, í raun algjört konfekt fyrir augað og tekur sig vafalítið vel út á ljósmynd. Sekkirnir eru þriðja kryddið, þeir draga fram eymdina í verkinu. Þegar tónlist Davíðs Þór Jónssonar bætist við og leiktjöldin, sem eru vægast sagt stórkostleg, verður ömurleikinn fullkominn.

Undarlegt FM-stuð

Á móti góðum leik og eftirminnilegum flottheitum er alltaf eitthvað sem stingur í stúf. Tvö atriði þykja mér sérstaklega einkennileg. Þau snúa bæði að tíma í verkinu. Reyndar kemur það ekki beint fram í uppsetningu Borgarleikhússins að leikritið gerist í kreppunni í Bandaríkjunum á síðustu öld. En ef sú á að vera raunin þykir mér einkennilegt að persónur blaða nokkrum sinnum í einhverju sem virðist splunkunýtt litprentað glanstímarit. Slíkt tilheyrir öðrum tíma. Hitt snýr að geislaspilara í útvarpstæki sem druslan, kona kvikindisins Curleys, kemur með inn í herbergi útlendingsins í leit að gamni (það truflaði mig reyndar ekkert að útlendingurinn var blökkumaður í upphaflegu verki Steinbecks). Til að kóróna tímaruglinginn fyrir mér er tónlistin sem hún spilar í leit sinni að stuði af tíðnisviði FM 957 og álíka útvarpsstöðva. Tónlistin sem þar drynur er í engu samræmi við skítuga sekkina á sviðinu og litrík föðurlönd þeirra George og Lennies, sem vera má að farandverkamenn hafi klæðst á þeim tíma sem verkið átti á gerast. Ef þessi nútímaskírskotun hefði verið tekin alla leið þá hefði Curley getað auðveldað sér endalausa leitina að nýbakaðri eiginkonu sinni, tekið upp farsímann og hringt í hana. En það hefði nú líka breytt verkinu.

Og svo er það tilfinningaþrunginn endirinn sem aflífun hundsins fyrr í verkinu vísar til og svo til allur hluti þess eftir hlé. Hann er vel  byggður upp, verður magnaður síðustu mínúturnar þar sem Ólafur Darri sankar að sér samúð áhorfenda. Það er þó rétt í blálokin, í endanum sem allir þekkja, sem púðrið virðist búið. Lokasenan missir marks. Þar hefði mátt gera betur, að mínu mati.

Af hverju Mýs og menn?

Jóla- og nýárssýningar leikhúsanna eru yfirleitt stórir viðburðir. Ég hef oft velt því fyrir mér hvers vegna stykkin sem sett eru upp á þessum tíma eru yfirleitt vel þekkt, ef ekki útjöskuð og stundum nokkuð hundruð ára gömul.

Það er reyndar margt sem tengir Mýs og menn við Ísland. Í verkinu deilir verkalýðurinn saman draumi og Bjartur í Sumarhúsum Halldórs Laxness um sjálfstætt líf á eigin landi. Og jafnvel má segja að sá draumur lifi enn nú þegar færist nær sögulokum í aðildarviðræðum við Evrópusambandið.

Svo er það blessuð kreppan. Þegar hún var nýskollin á hér haustið 2008 rifjaði Svarthöfði upp leikrit Steinbecks í pistli sínum í DV. Hann benti þar á að Lennie hafi verið góður maður og ekkert þráð heitar en að strjúka músum í vasa sínum. Endalokin urðu alltaf þau sömu. Mýsnar enda líf sitt kramdar til dauða í hrammi þess sem elskar þær mest. Vonandi hefur sá boðskapur skilað sér til stjórnmálamanna, borgarfulltrúa og annarra sem mættu á frumsýninguna og hafa örlög okkar í hendi sér. Þeir mega ekki elska okkur svo mikið að við deyjum. 

Höfundur: Jón Aðalsteinn Bergsveinsson, blaðamaður á Viðskiptablaðinu. jon@vb.is

Hér að neðan má sjá nokkur atriði úr kvikmyndinni Of Mice and Men með þeim Gary Sinise í hlutverki George og John Malkovich sem Lennie. Í einu myndskeiðanna má sjá lokaatriði myndarinnar, sem mér þótti ansi kröftugt þá og þykir enn. Þeir sem ekki hafa séð leikritið og þekkja það ekki ættu náttúrlega ekki að skoða meira.