*

Bílar 11. maí 2019

Ekur um á 411 hestafla Raptor

Helga Hlín Hákonardóttir lögmaður er alin upp innan um bíla, vélsleða og mótorhjól.

Róbert Róbertsson

Helga Hlín Hákonardóttir lögmaður er einn af eigendum ráðgjafafyrirtækisins Strategíu og stjórnarkona í atvinnulífinu. Hún er alin upp innan um bíla, vélsleða og mótorhjól og tók mótorhjólapróf samhliða bílprófi 17 ára gömul. Helga Hlín er fædd og uppalin á Akureyri og upphafið að tækjadellunni segir hún að megi rekja til þess að hún seldi hestinn sinn til að geta keypt vélsleða, sem notaður til að leika, komast í skólann og skjótast í kaupfélagið.

Hver er uppáhaldsbíllinn sem þú hefur ekið?

„Hvíti Ford 150 Raptor bíllinn sem ég á í dag er besti bíll sem ég hef ekið. Fjöðrunin á Raptor á meira tengt við lendingarbúnað flugvéla en dempara í bílum en hann er búinn nítró dempurum sem gera það að verkum að maður finnur aldrei fyrir pallinum eða því sem verður á vegi manns. Og svo leiðist engum með 411 hestöfl undir húddinu."

Hver er eftirminnilegasta bílferðin?

„Það eru ýmsar ökuferðir sem voru farnar fyrir 30 árum sem eru eftirminnilegar en eiga ekki endilega erindi á prent. Ég flutti tvítug frá Akureyri til að fara í HÍ og á Akureyri býr ennþá stór hluti fjölskyldunnar þannig að við höfum alltaf ferðast mikið norður í land. En árlegar þriggja vikna útilegur fjölskyldunnar á téðum Raptor með fellihýsið um há- og láglendið eða „roadtrip" á vegum framandi landa eru bestu fríin að mati allra í fjölskyldunni og skilja eftir sig ógleymanleg ævintýri og minningar. Við förum gjarnan af stað í júlí og stefnan yfirleitt ekki önnur en að hitta á gott veður og skemmtilega ferðafélaga."

Hver er besti bílstjóri sem þú þekkir (fyrir utan sjálfa þig)?

„Ég myndi segja að bróðir minn Gunni Hákonar sé næstbesti ökumaður sem ég þekki - á eftir mér væntanlega. Hann er margreyndur vélsleða- og snjótorfæru (sno-cross) keppandi og reyndar frumkvöðull í því sporti hér á landi. Hann er búinn að vera með nefið ofan í húddunum á sleðum og bílum síðan ég man eftir mér - ef hann er ekki uppi á fjöllum eða inni á dal að leika sér."

En versti bílstjórinn?

„Þarna vil ég aftur nefna bróður minn Gunna - en honum tókst á sínum yngri árum að velta gulri Volkswagen bjöllu í Gilinu heima á Akureyri - rétt fyrir neðan gamla íþróttahúsið í Laugagötu sunnan megin við sundlaugina. Uppí móti. Og hann velti gulu bjöllunni aftur upp Gilið nokkrum dögum síðar.  Það hlýtur að vera einhvers konar met."

Hvað hlustarðu helst á í bílnum?

„Það fer eftir tilefninu. Á ferðalögum fjölskyldunnar um landið veljum við okkur oft þema og Björk, GusGus og Sigurrós eru vinsæl og í minningunni tengjast tilteknir diskar einstökum ferðum sem gaman er að rifja upp. Við hlustum líka oft á Podcast saman eins og „Í ljósi sögunnar" eða eitthvað tengt þjálfun og heilsu. Dag frá degi fara fréttir og dægurmál minnkandi - og tónlistin orðin ríkjandi enda auðvelt að setja saman eigin lista og uppgötva nýja tónlistarmenn eins og GDRN."

Nánar er fjallað um málið í sérblaðinu Bílar sem fylgdi Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér