*

Bílar 9. desember 2018

Ekur um á Land Cruiser leigubíl

Það eru ekki margir leigubílstjórar sem aka um á stórum jeppum en Jón Pálsson er einn þeirra.

Róbert Róbertsson

Ég byrjaði að aka leigubíl í apríl 2004. Ég var áður í búskap og svo í byggingarvinnu. Ég ákvað síðan að breyta til og fara í leigubílaakstur. Þá átti ég Land Cruiser 120 og skellti gula Taxa merkinu upp á þakið. Ég fór að keyra á fullu og hef alltaf haft gaman af leigubílaakstrinum síðan ég byrjaði í þessu starfi fyrir 14 árum. Ég keyri út frá Hellu en svo er ég auðvitað að taka farþega um alla um alla Rangárvallarsýslu og stundum lengra,“ segir Jón.

,,Ég hef farið lengst frá Hvolsvelli alla leið austur á Jökulsárlón. Það var dagsferð. Samtals voru þetta 580 km fram og til baka. Það voru Bandaríkjamenn sem voru þarna á ferðinni og þeim fannst þetta mjög skemmtilegur túr. Ég er að aka yfir sumartímann upp í Landmannalaugar, Heklu, Gjána í Þjórsárdal og fleiri fallega og áhugaverða staði. Ég geri þá fast verð í túrinn og hef meira að segja gefið út lítinn bækling þar sem ég kynni mig og helstu staði sem eru í nágrenninu og gaman er að skoða.“

Gaman að aka á fallega staði
Jón segist aðallega keyra erlenda ferðamenn á þessa staði. ,,Útlendingarnir hafa mjög gaman af þessum ferðum. Þeir taka mikið af myndum og dást að náttúrunni og sérstaklega ef veður er gott. Ég hef mjög gaman af að keyra í góðu veðri um þessa fallegu staði sem landið okkar hefur upp á að bjóða. Það er alltaf jafn gaman og mér finnst ég alltaf sjá eitthvað nýtt þótt ég keyri sömu leiðina mörgum sinnum. Þá geta mismunandi birtuskilyrði haft áhrif og margt fleira.“

Jón ók talsvert fyrir Hótel Rangá á tímabili og keyrði m.a. brúðhjón sem voru að gifta sig í nágrenninu og gistu síðan á hótelinu. ,,Það var oft mjög skemmtilegt enda mikil stemning í kringum brúðkaupin. Þá mættu fjölmargir erlendir gestir og allir voru uppáklæddir og flottir. Þetta var mjög skemmtilegt og ekki síst að aka brúðhjónunum,“ segir hann.

Mörgum finnst gaman að stija í stórum jeppa sem er leigubíll
Jón er nýbúinn að fá sér nýjan Toyota Land Cruiser 150 og er hæstánægður með bílinn. ,,Hann er mjög vel búinn og með leðursætum og rafmagni í öllu. Hann er með hita í stýri og hita í sætum og líka kælingu í framsætunum. Það er allt í honum. Þetta er sjö sæta jeppi þannig að ég get tekið sex farþega sem er mjög þægilegt. Það er mjög þægilegt að sitja í honum og þótt maður aki langar vegalengdir þá finnur maður ekki fyrir því. Fólk er mjög ánægt að ferðast í bílnum og mörgum farþegum finnst gaman að sitja í stórum jeppa sem er leigubíl,“ segir hann.

Mikill bíladellukall
Hann segist vera mikill bíladellukall allar götur síðan hann var smápjakkur. ,,Faðir minn, Páll Elíasson, átti Willys árgerð 1947 og síðar eignaðist hann þrjá Land Rover jeppa sem allt voru mjög flottir bílar og það var rosalega gaman að alast upp með þessum flottu jeppum. Fyrsti bíllinn minn var Lada 1500 sem ég keypti splunkunýjan árið 1979. Ég er mikill aðdáandi Toyota Land Cruiser. Þetta er tólfti jeppinn sem ég á af þeirri gerð og þetta eru frábærir bílar. Ég eignaðist fyrsta Land Cruiser jeppann minn árið 2000. Þá var ekki aftur snúið. Þetta eru hörkugóðir bílar og drífa allt enda með lágu drifi.“

Mikilvægt að vera með hreinan bíl
Jón segir það afar mikilvægt að vera með hreinan og fínan bíl í leigubílaakstrinum en það getur verið enn erfiðara að halda honum heinum í sveitinni.

,,Þótt maður aki um sveitirnar þá reyni ég alltaf að halda bílnum tandurhreinum bæði að innan og utan. Það skiptir gríðarlegu miklu máli. Það er mikilvægt að fá góða þjónustu ekki síst þegar maður er með leigubíl. Það hefur allt að segja. Ég get ekki annað en hrósað Toyota umboðinu á Selfossi fyrir þá góðu þjónustu sem það veitir. Þar er Haukur Baldvinsson lykilmaður og allt hans starfsfólk fær hæstu einkunn. Ég hef keypt alla Land Cruiser bílana mína þar enda treysti ég engum betur,“ segir Jón, leigubílstjóri á Hellu, að lokum.

Nánar er fjallað um málið í Atvinnubílar, fylgiriti Viðskiptablaðsins. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér