*

Matur og vín 16. júlí 2017

Elskar íslenska hafragrautinn

Hólmfríður Magnúsdóttir landsliðskona í knattspyrnu er a-týpa fram í fingurgóma, vaknar á undan klukkunni og „snúsar“ aldrei. Hún sat fyrir svörum í Morgunmat meistaranna í Eftir vinnu.

Kolbrún P. Helgadóttir

Ertu a- eða b-týpa?
A-týpa allan daginn.


Skipuleggur þú daginn þinn kvöldinu áður?
Yfirleitt geri ég það, þar sem ég er mjög skipulögð og held fast í rútínuna mína.

Leggurðu í vana þinn að „snúsa“?
Ég snúsa aldrei þar sem ég vakna yfirleitt alltaf áður en klukkan hringir.

Hvenær svafstu síðast yfir þig?
Það er svo langt síðan að ég man ekki eftir því.

Áttu þér heilaga morgunrútínu?
Já, ég borða alltaf sama morgunverðinn.

Hvað borðar þú í morgunmat?
Ég borða hafragraut með valhentum, rúsínum, banana og tveimur döðlum. Yfir grautinn helli ég svo Hámarki. Ég sýð mér einnig eitt eitt egg, drekk hálft glas af rauðrófusafa, eitt stórt vatnsglas og einn kaffibolla með teskeið af kókósolíu út í. Að lokum tek ég vítamín frá NOW og Lýsi.

En þegar þú ert á hraðferð?
Hámark og banana.

Ertu meira fyrir te eða kaffi?
Kaffi.

Hvað borðar þú í morgumat um helgar?
Ég held yfirleitt rútínunni minni alla vikuna, en það kemur fyrir að ég fæ mér nýbakað brauð með túnfisksalati, súkkulaðisnúð og kókómjólk.

Ef þú gætir drukkið einn morgunbolla með hverjum sem er, hver yrði fyrir valinu?
Ég væri til í að vera í sveitinni minni og fá að ræða mikið við hann pabba heitinn um síðustu ár yfir einum kolsvörtum kaffibolla.

Morgunverðaruppskrift:
Á leikdegi geri ég mér alltaf hafra/banana pönnukökur. Þá borða ég minn klassíska morgunverð og bæti svo pönnukökunum við. Þær innihalda tvö egg, tvo banana (vel þroskaða) ásamt smá haframjöli. Á pönnukökurnar set ég svo nutella.

Aldur? 32 ára.
Starf? Þjálfari og leikmaður hjá Knattspyrnufélagi Reykjavíkur.
Hjúskaparstaða? Á föstu.
Stjörnumerki? Meyja