*

Sport & peningar 29. júní 2012

Elsku RÚV

Það eru nokkrir hlutir sem RÚV má hafa í huga fyrir næsta stórmót í knattspyrnu.

Guðni Rúnar Gíslason

Þegar stórmót á borð við Evrópukeppnina í knattspyrnu fer í gang er viðbúið að skiptar skoðanir séu um frammistöðu lýsenda og þeirra sem tjá sig fyrir og eftir leiki. Gagnrýnin á RÚV hefur verið eins og frammistaðan þar, ansi misjöfn. En það eru nokkrir hlutir sem RÚV má hafa í huga fyrir næstu keppni.

Síðustu leikir í riðlakeppni eru mjög mikilvægir þar sem þar ræðst hverjir fara áfram  og hverjir halda heim á leið. Þar af leiðandi er enn mikilvægara að lýsendur séu sérstaklega vel undirbúnir þannig að þeir viti hvaða staða komi upp ef mark kemur úr öðrum tveggja leikjanna sem fara fram samtímis.

Það er ekki nóg að vita hvaða lið fara áfram núna heldur líka hvað gerist ef einhver skorar og hvernig það breytir stöðunni í riðlinum. Áhorfendur heima í stofu eiga ekki að þurfa að hafa textalýsingu erlendra miðla opna til að hafa þessar upplýsingar sér við hlið. Þrátt fyrir að lýsendur RÚV hafi farið vaxandi í frammistöðu sinni eftir því sem líður á keppnina virðist sem þeir hafi ekki haft tíma til að fara almennilega yfir stöðu  riðlanna þegar síðustu leikdagar í riðlakeppninni runnu upp.

Hlutverk hliðardrengjanna fyrir leik, í hálfleik og eftir leiki í EM-stofunni virðist hafa verið vanhugsað. Allir eru þeir skemmtilegir og „hressir“ náungar sem yfirleitt geta lífgað upp á umræðu um fótbolta en það er þó ekki nóg til að halda uppi umræðu á heilu  Evrópumóti.

Það væri eflaust til bóta að láta EM stofuna eins og hún leggur sig líta á nokkur myndbönd með greiningum Gary  Neville á leikjum enska boltans í vetur. Hann tekur hlutverk sitt alvarlega, greinir leiki og spáir í hvers vegna leikirnir spilast eins og þeir gera. Neville notar grafíkina óspart sem hjálpar honum við að koma sínu til skila. Neville hefur sýnt að maður þarf ekki að vera sá fyndnasti í bransanum til að geta verið góður í útsendingu, það þarf einfaldlega að hafa þekkingu á fyrirbærinu og ná að koma henni til skila. Enginn efast um að strákarnir í EM-stofunni hafi þekkingu á knattspyrnu en þeir þurfa að koma henni betur á framfæri.

Höfundur er blaðamaður. Pistillinn birtist í síðasta tölublaði Viðskiptablaðsins 28. júní síðastliðinn. Áskrifendur geta nálgast blaðið hér að ofan undir liðnum tölublöð.

Stikkorð: EM í knattspyrnu  • RUV