*

Veiði 22. febrúar 2014

Eltast við tígrisdýr vatnanna

Kvikmyndahátíð fyrirveiðiáhugamenn og veiðisýning fer fram í Bíó Paradís eftir tvær vikur.

Trausti Hafliðason

Alþjóðlega fluguveiði-kvikmyndahátíðin RISE verður haldin í fjórða skiptið 6. mars í Bíó Paradís. Áður en kvikmyndirnar verða sýndar verður haldin vegleg veiðisýning í húsnæði Bíó Paradísar. Iceland Angling Travel (IAT) stendur að hátíðinni.

IAT er sérhæfð fluguveiðiferðaskrifstofa, sem undanfarin ár hefur flutt erlenda veiðimenn inn til landsins en er nú að gera slíkt hið sama fyrir íslenska veiðimenn, sem vilja veiða erlendis. Kristján Benediktsson er framkvæmdastjóri IAT.

„Við höfum verið með þessa hátíð síðan 2011 og það hefur verið uppselt öll árin,“ segir Kristján. „Við höfum alltaf verið að leita leiða til að gera hátíðina veglegri og nú ákváðum við að taka allt bíóið á leigu þannig að það verður nóg pláss fyrir veiðisýninguna og gesti. Veiðisýningin byrjar klukkan sex og kvikmyndasýningin klukkan átta.“

Fjórar myndir verða sýndar á hátíðinni og eru þær samanlagt um tveggja klukkustunda langar. Á veiðisýningunni munu flestir stærstu veiðileyfasalarnir kynna sínar ár eða Stangaveiðifélag Reykjavíkur, Lax-á, Hreggnasi og Strengir. Fluguhnýtarar munu fræða fólk um hnýtingar og hnýta nokkrar flugur. Veiðikortið kynnir sína starfsemi, verslunin Veiðivon kynnir nýja veiðistöng, umboðsaðilar Go-Pro myndavélanna kynna nýju myndavélina, Ölgerðin verður með kynningu á viskíi og svo mætti áfram telja.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir liðnum tölublöð hér .