*

Hitt og þetta 15. nóvember 2004

Elton John útvegar Watford um 130 milljónum króna

Enski söngvarinn Elton John ætlar að koma sínu knattspyrnufélagi Watford til aðstoðar næsta sumar en hann hefur verið aðdáandi númer eitt í fjölda mörg ár. Elton John heldur þá tónleika á leikvangi félagsins, Vicarage Road, og talið er fullvíst að hann verði þéttsetinn, en hann rúmar 22 þúsund manns. Ársmiðahafar hjá félaginu og hluthafar ganga fyrir áður en salan hefst á almennum markaði snemma á næsta ári. Ágóðinn af tónleikunum, sem talið er að verði í kringum ein milljón punda, eða um 130 milljónir króna, rennur óskiptur til Watford.

Elton John er ævikjörinn heiðursforseti Watford en hann kom félaginu í fremstu röð í ensku knattspyrnunni á níunda áratugnum, sem stjórnarformaður þess, í slagtogi við knattspyrnustjórann Graham Taylor. Watford lenti í öðru sæti efstu deildar árið 1983 og komst í úrslitaleik bikarkeppninnar árið eftir. Íslensku landsliðsmennirnir Heiðar Helguson og Brynjar Björn Gunnarsson leika með Watford.